Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 09. apríl 2019 13:32
Elvar Geir Magnússon
Solskjær: Sé Pogba ekki spila fyrir annað lið á næsta tímabili
Paul Pogba á æfingu í dag.
Paul Pogba á æfingu í dag.
Mynd: Getty Images
Manchester United mætir Barcelona annað kvöld í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Eins og við var búist var Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, spurður út í Paul Pogba á fréttamannafundi í dag. Pogba hefur verið orðaður við Real Madrid.

„Pogba er mjög spenntur fyrir leiknum á morgun. Hann veit að viðureignin gegn PSG var ekki hans besta stund persónulega. Hann er einbeittur að því að spila vel gegn Barcelona á morgun. Ég get ekki séð hann spila fyrir annað lið en Manchester United á næsta tímabili," segir Solskjær.

„Þegar Paul er upp á sitt besta getur hann stjórnað leik eins og þessum. Hans verk er að skapa, vinna boltann og keyra fram. Ég býst við flottri frammistöðu frá honum á morgun."

Messi og Suarez halda mönnum á tánum
Solskjær var einnig spurður út í það verkefni að mæta Lionel Messi sem margir telja besta leikmann heims.

„Hvernig áætlun getur þú haft til að reyna að stöðva einn besta leikmann heims? Á þessu tímabili höfum við mætt Cristiano Ronaldo hjá Juventus og Kylian Mbappe hjá PSG. Messi og Luis Suarez munu halda varnarmönnum okkar á tánum," segir Solskjær.
Athugasemdir
banner
banner