Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   lau 09. maí 2020 23:51
Elvar Geir Magnússon
Heimild: RÚV 
Kári Árna: Minn ferill stjórnast af landsliðinu
Kári hefur leikið 83 landsleiki fyrir Ísland.
Kári hefur leikið 83 landsleiki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðvörðurinn reynslumikli Kári Árnason var með það markmið að spila með Íslandi í lokakeppni EM á þessu ári.

Umspilsleikjunum var frestað vegna kórónaveirufaraldursins og lokakeppnin hefur verið sett á næsta ár.

Óljóst er hvenær umspilsleikirnir verða en Kári er 37 ára og vildi lítið segja um framhaldið hjá sjálfum sér í viðtali við RÚV.

„Minn ferill hefur náttúrulega svolítið stjórnast af landsliðinu og ég hef tekið ákvarðanir út frá því þar sem það er mitt keppikefli og það sem ég hef mestan metnað fyrir. Þó er það auðvitað klúbbafótboltinn sem borgar launin," segir Kári.

Kári er samningsbundinn Víkingi út þetta tímabil.

„Ég ætla bara svolítið að spila þetta eftir eyranu og sjá hvernig mér líður. Mér líður ágætlega núna og ef það heldur áfram þannig þá get ég alveg hugsað mér að halda áfram. En svo er líka spurning um hvernig þetta fer með landsliðinu, ef við komumst á EM þá ætla ég ekki að sitja þegjandi og hljóðalaust uppi í stúku. Þá ætla ég að fara með og gera allt sem í mínu valdi stendur til að vera valinn af landsliðsþjálfaranum."

Þegar Kári er spurður út í markmið Víkinga í sumar segir hann að liðið hafi burði til að taka þann stóra.

„Við erum ekkert að gefa út mikið en ég held að við séum fullkomnlega færir um - ef allt smellur hjá okkur - að bara vinna þessa deild," segir Kári.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner