Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 09. maí 2022 20:57
Ívan Guðjón Baldursson
Jody Lukoki er látinn - Aðeins 29 ára
Mynd: EPA

Jody Lukoki, landsliðsmaður Austur-Kongó og leikmaður Twente í Hollandi, er látinn aðeins 29 ára að aldri.


Lukoki hóf ferilinn hjá Ajax og lék fyrir Yeni Malatyaspor í Tyrklandi áður en hann skipti yfir til Twente í fyrra.

„Félagið er í áfalli og sendir samúðarkveðjur til vina og fjölskyldu Jody," segir meðal annars í yfirlýsingu frá FC Twente.

Lukoki gekk í raðir Twente síðasta sumar en meiddist illa á hné á undirbúningstímabilinu og þurfti meðal annars að fara í aðgerð. Í febrúar rifti félagið samningi leikmannsins vegna 'atvika í hans persónulega lífi'.

Fjölmiðlar í Hollandi greina frá þessum 'atvikum' og segja Lukoki hafa lent í heiftarlegu rifrildi við eigin fjölskyldumeðlim þar sem þeir voru viðstaddir veisluhöld. Það hafi endað með ljótum slagsmálum þar sem Lukoki særðist og fékk sýkingu í hnéð sem hann hafði farið í aðgerð á.

Lukoki fór í endurhæfingu en sýkingin kom alltaf aftur og í lokin sáu læknar ekkert annað ráð en að skera fótlegginn af þessum atvinnumanni í knattspyrnu.

Leikmaðurinn var settur í dá fyrir aðgerðina sem hefur ekki gengið nógu vel því Lukoki vaknaði aldrei úr dáinu og hefur verið úrskurðaður látinn.

Það er aðeins vika síðan Lukoki birti mynd af sér lyfta lóðum í líkamsræktarstöð og er þetta mikið áfall fyrir alla í kringum hann.


Athugasemdir
banner
banner
banner