banner
   fim 09. júní 2022 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Eini Rússinn í fótboltaheiminum sem þorir að tala gegn Pútín
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Nadezhda Karpova er eina landsliðskona Rússlands sem þorir að tala gegn Vladímír Pútín og innrásinni í Úkraínu.


Fedor Smolov og Aleksandr Sobolev eru einu landsliðsmenn Rússa sem hafa talað gegn innrásinni í Úkraínu. Þeir tjáðu sig um innrásina þegar hún átti sér stað en voru snöggir að eyða ummælunum út og hafa ekki tjáð sig frekar um stríðið.

Karpova er sú eina í kvennaliðinu sem hefur tjáð sig gegn stríðinu og gerir hún það nánast daglega í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram þar sem hún er með 144 þúsund fylgjendur. Ef hún væri í Rússlandi sæti hún líklega í fangaklefa þessa stundina eins og margir aðrir sem hafa mótmælt stríðinu.

„Ég get ekki litið á þetta og þagað. Ég veit ekki hvað myndi gerast ef ég byggi í Rússlandi en ekki á Spáni. Fyrst ég bý hér þá líður mér eins og ég verði að tjá mig um það sem er að gerast," sagði Karpova í viðtali við BBC.

„Rússneska áróðursvélin er að sannfæra Rússa um að við séum sérstök þjóð og að restin af heiminum sé gegn okkur. Ég tel Rússa ekki vera sérstaka þjóð en á sama tíma þá skammast ég mín ekki fyrir að vera rússnesk vegna þess að það er ekki samasemmerki á milli ríkisstjórnar Vladímír Pútín og þess að vera Rússi.

„Pútín er að taka allt frá okkur, hann er að stela framtíðinni frá okkur. Ríkisstjórnin mætti ekki mikilli andstöðu í sínum aðgerðum, flestir Rússar loka bara augunum og halda áfram með sitt daglega líf. Ég hef tekið þátt í tveimur mótmælum en finnst það ekki nóg.

„Mér líður eins og við þurfum að frelsa allt þetta fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á áróðursvélinni. Ég vorkenni þeim og trúi að við þurfum að gera allt í okkar valdi til að frelsa þau."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner