fim 09. júní 2022 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Køhlert sagði Hannesi að hann væri framherji númer fimm - „En við erum bara fjórir?"
Hannes í viðtali í landsliðsverkefni
Hannes í viðtali í landsliðsverkefni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum landsliðsmaðurinn Hannes Þorsteinn Sigurðsson var gestur Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið í síðustu viku.

Þar fór Hannes yfir feril sinn, sagði sögur og valdi í draumalið skipað leikmönnum sem hann spilaði með á sínum ferli.

Tímabilið 2006-2007 var Hannes leikmaður Bröndby í Danmörku. Í kjölfarið skiptir hann svo til Viking í Noregi. Hannes ræddi skiptin í þættinum. Af sögu Hannesar að dæma hafði þjálfari Bröndby lítinn áhuga á því að halda Hannesi hjá félaginu.

„Þegar Rene [Muelensteen, þjálfari] fer frá Bröndby vissi ég að dagar mínir væru taldir hjá félaginu. Það tekur við þjálfari sem heitir Tom Køhlert. Ég vildi fara og ég vissi alveg að þeir vildu losna við mig - held að það hafi ekki verið neitt voðalega mikið leyndarmál," sagði Hannes.

„Það var beðið með að funda með mér þangað til glugginn í Evrópu var lokaður. Tveimur dögum eftir það var ég kallaður á fund. Köhlert sest niður með mér og segir: „Heyrðu, þú ert ekki mikið að fara spila.""

„Ég svara honum: „Hver er staðan svona nákvæmlega?" „Þú ert 'striker' númer fimm," sagði hann. „En við erum bara fjórir?," svaraði ég og hann bara horfir á mig: „Já, nákvæmlega"."


Hannes segir frá því að Stavanger hafi á þeim tíma verið sitt annað heimili þar sem hann þekkti alla mjög vel. Hann vildi núlstilla sig og keyra ferilinn í gang aftur. Hann hafði áður verið hjá Viking á árunum 2002-2005.

Hannes er uppalinn í Fjölni og FH og lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki með FH árið 2000. Hann lék víðsvegar um Evrópu á sínum félagsliðaferli og lék einnig þrettán landsleiki. Í dag er hann þjálfari Wacker Burghausen í Þýskalandi. Hægt er að hlusta á þáttinn með Hannesi hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner