fim 09. júní 2022 16:00
Fótbolti.net
Veltu framtíð Söru fyrir sér - „Því held ég að hún fari ekki þangað"
Sara Björk í landsleik í apríl.
Sara Björk í landsleik í apríl.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir er án félags eftir tvö tímabil hjá Lyon. Lyon varð franskur meistari og Evrópumeistari í vor en Sara var ekki í stóru hlutverki. Sara átti sitt fyrsta barn undir lok síðasta árs og sneri til baka á völlinn í mars.

Í apríl tók svo Sara í fyrsta skiptið þátt í landsliðsverkefni frá því í desember 2020. Hún hefur orðið sænskur, þýskur og franskur meistari á sínum ferli og tvisvar sinnum unnið Meistaradeildina. Hún á að baki 138 leiki fyrir íslenska A-landsliðið og er sú leikjahæsta í sögunni.

Sæbjörn Steinke ræddi við Bjarna Helgason, blaðamann á Morgunblaðinu, fyrr í þessari viku. Umræðuefni þáttarins voru þættirnir Dætur Íslands á mbl.is og kvennalandsliðsins. Bjarni heimsótti Söru við gerð þáttanna fyrr á þessu ári og var Sæbjörn forvitinn hvort Bjarni hefði einhverja tilfinningu fyrir því hvert næsta skref Söru yrði.

„Ég veit það ekki, þetta er erfitt. Ég held að hún yrði geggjuð í enska boltanum og það væri alveg snilld að sjá hana þar hjá [Man] City, Chelsea eða Arsenal eða eitthvað. En ég held bara að núna er hún að taka allar ákvarðnir út frá fjölskyldunni og allt þetta og ég held að það sé mjög erfitt fyrir sambýlismann hennar [Árna Vilhjálmsson] að fá atvinnuleyfi á Englandi. Ég held að hann sé ekki að fara spila atvinnumannafótbolta á Englandi og því held ég að hún fari ekki þangað," sagði Bjarni.

„Ég get alveg séð fyrir mér að ef hún fer frá Frakklandi að hún fari jafnvel til Ítalíu. Ég held hún fari ekki aftur til Þýskalands þótt hún geti það. Hún er held ég svolítið búinn með þann pakka," sagði Bjarni og skaut inn sögu í tengslum við þáttargerð sína. Þar voru Þjóðverjir ansi erfiðir.

„Hún vann allt sem hægt var að vinna í Þýskalandi. Ég get alveg séð hana fyrir mér á Ítalíu, jafnvel Spáni. Ef það eru góð lið sem vilja fá hana þar þá gæti hún alveg stokkið á það," sagði Bjarni.

„Það er mjög góður punktur með England. Ef hún fer ekki til Englands, og ætlar að vera í Evrópu - maður þekkir ekki bandaríska markaðinn neitt sérstaklega - þá erum við bara að tala um einhver 5-6 lið sem koma til greina. Ekkert mikið meira," sagði Sæbjörn.

„Juventus, það gæti verið flott eða Real Madrid. Hún fer ekki til Bandaríkjanna, ég held það sé alveg 100%. Sé það allavega ekki gerast. En það verður mjög spennandi að sjá hvað hún gerir. Ég held að hún eigi nóg eftir," sagði Bjarni.

Hægt er að hlusta á spjallið hér að neðan.
Bjarni Helgason um Dætur Íslands og kvennalandsliðið - „Á alltaf að vera í þessum hóp"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner