Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 09. júlí 2019 11:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stefán Logi: Vonandi ekki of stórt stökk
Stefán Logi er genginn í raðir Fylkis. Hér er hann með Helga Sigurðssyni, þjálfara liðsins.
Stefán Logi er genginn í raðir Fylkis. Hér er hann með Helga Sigurðssyni, þjálfara liðsins.
Mynd: Twitter
Stefán lék síðast í efstu deild með KR 2017.
Stefán lék síðast í efstu deild með KR 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í fyrra var hann í markinu hjá Selfossi í Inkasso-deildinni.
Í fyrra var hann í markinu hjá Selfossi í Inkasso-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir, sem situr í sjötta sæti Pepsi Max-deildar karla, samdi í gær við fyrrum landsliðsmarkvörðinn Stefán Loga Magnússon. Hann kemur til Fylkis þar sem markvörðurinn Aron Snær Friðriksson er meiddur og verður frá næstu sex vikurnar.

Stefán Logi, sem er 38 ára, var síðast á mála hjá Selfossi en er nú mættur aftur í efstu deild, í Pepsi Max-deildina.

Stefán á að baki 10 A-landsleiki fyrir Ísland. Hér heima hefur hann spilað með Víkingi R., Þrótti R., KS, KS/Leiftri, Hvöt og KR, auk Selfoss. Erlendis hefur hann leikið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Englandi. Þá var hann ungur á mála hjá Bayern München.

„Það er í sjálfu sér ekki langur aðdragandi að þessu. Aron meiðist illa strákgreyið og í kjölfarið fara hlutirnir að gerast hjá Fylki," sagði Stefán Logi við Fótbolta.net í dag.

Hann segir það ekki ákveðið hvort hann sé að koma inn sem byrjunarliðsmarkvörður hjá Fylkismönnum.

„Það er ekkert ákveðið. Þjálfarinn velur alltaf liðið. Að öðru leyti verður mitt hlutverk númer eitt, tvö og þrjú að vera partur af hópnum og styðja þessa ungu stráka. Ég er mjög spenntur og virkilega glaður að þetta hafi gengið eftir. Þetta er mjög spennandi verkefni."

Ekkert spilað í sumar
Eins og áður segir þá lék Stefán með Selfossi í fyrra. Hann var orðaður við félög í Pepsi Max-deildinni í vetur, en það var ekki fyrr en Fylkir kallaði núna að hann ákvað að taka slaginn.

„Ég hef ekkert spilað í sumar, ég hef verið að þjálfa. Nú hefst ákveðin vinna með Steina Magg (markvarðarþjálfara) og liðinu. Svo verður bara að koma í ljós hvernig standið er á gamla," segir Stefán.

„Það hefur verið svolítið af þreifingum í vetur og í vor, og núna þegar nær dró glugganum. Þetta er það eina sem hefur virkilega vakið áhuga minn þar sem forsendurnar hafa verið réttar fyrir mig."

Hvernig verður það að taka stökkið í Pepsi Max-deildina eftir að hafa ekkert spilað í sumar?

„Það er erfitt að svara því. Það verður vonandi ekki of stórt stökk, en það þarf bara að koma í ljós. Maður getur ekki gert annað en sitt besta og það hef ég alltaf reynt að gera á mínum ferli. Það verður vonandi nóg í þetta skiptið líka - ef ég fæ tækifærið."

Verið að reyna að gera hlutina vel
Stefán Logi á 10 A-landsleiki að baki. Reynslumestu leikmenn Fylkis eru tveir fyrrum landsliðsmenn, Ólafur Ingi Skúlason og Helgi Valur Daníelsson. Stefán Logi telur þá flottar fyrirmyndir fyrir félagið og það verði gaman að spila með þeim, sem og auðvitað öðrum leikmönnum liðsins.

„Það er virkilega gaman (að þeir séu í Fylki). Ég þekki þá ágætlega og þeir eru frábærir leiðtogar og fyrirmyndir fyrir þetta félag. Ég þekki Helga extra vel úr yngri landsliðunum og annað."

„Að öðru leyti eru margir aðrir flottir strákar þarna og maður fann það strax þegar maður kom inn í klefann að það er góður andi. Það er verið að reyna að gera hlutina vel og það er samstaða í þessu félagi. Það var gaman að sjá hvað aðstæðurnar eru orðnar flottar. Það er til fyrirmyndar," segir Stefán.

Fylkir er í sjöunda sæti Pepsi Max-deildarinnar með 15 stig úr 11 leikjum.

„Það sem ég hef séð í sumar af liðinu hefur að mestu leyti verið mjög gott. Auðvitað vantar smá stöðguleika og það er ekkert óeðilegt þegar félög eru að fara í svona vegferð. Í liðinu eru mjög margir uppaldir leikmenn, sem hafa samt sem áður ágætis reynslu. Það er mjög fagleg og flott vinna sem verið er að vinna þarna."

Samhliða því að spila með Selfossi í fyrra var Stefán Logi einnig að starfa við markvarðarþjálfun hjá félaginu. Einu sinni í viku hefur hann verið með hóp í þjálfun sem hann hefur fylgt eftir frá því í fyrra. Þá er hann verslunarstjóri hjá Sportvörum.

„Nú þarf ég að einbeita mér að því að vera á milli stanganna sjálfur og gefa allt sem ég get í þetta verkefni. Það er mikið að gera í vinnunni hjá mér og ég er virkilega þakklátur eigandanum hjá Sportvörum að gefa mér svigrúm til að sinna þessu út tímabilið. Þetta verður bara gaman," sagði þessi fyrrum landsliðsmarkvörður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner