Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 09. október 2019 14:30
Brynjar Ingi Erluson
Átta mörk í ellefu leikjum með Lille - Smitaðist af malaríu á síðasta ári
Victor Osimhen er efnilegur leikmaður
Victor Osimhen er efnilegur leikmaður
Mynd: Getty Images
Osimhen og Ikone eru tveir leikmenn sem Luis Campos heldur mikið upp á
Osimhen og Ikone eru tveir leikmenn sem Luis Campos heldur mikið upp á
Mynd: Getty Images
Franska liðið Lille missti bæði Rafael Leao og Nicolas Pepe frá liðinu í sumar eftir að hafa tryggt þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu en Luis Campos, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, var fljótur að kaupa óslípaðan demant frá Sporting Charleroi í Belgíu.

Pepe og Leao voru atkvæðamiklir með Lille á síðustu leiktíð og ljóst að það yrði erfitt fyrir Lille að halda þeim. Pepe var seldur til Arsenal fyrir 72 milljónir punda á meðan Leao fór til Milan fyrir ríflega 30 milljónir punda.

Luis Campos, sem stýrir íþróttamálunum hjá Lille, er þekktur fyrir að finna gæðaleikmenn á góðu verði en hann var áður hjá Mónakó og Real Madrid þar sem hann fann menn á borð við Anthony Martial, Thomas Lemar, Fabinho, Benjamin Bendy og fleiri góða leikmenn.

Hann keypti nígeríska framherjann Victor Osimhen frá Sporting Charleroi í Belgíu fyrir 12 milljónir evra í sumar og er hann þegar byrjaður að fylla í það skarð sem Pepe og Leao skildu eftir sig.

Smitaðist af malaríu

Osimhen er 20 ára gamall og var markahæsti leikmaðurinn á HM U17 ára ári 2015 en hann skoraði þá 10 mörk á mótinu og var seldur til Wolfsburg í Þýskalandi. Það gekk þó ekki eins og vel hann bjóst við þar auk þess sem hann smitaðist af malaríu og ferill hans í hættu. Hann náði sér þó að fullu og var lánaður til Belgíu til Charleroi og ákvað liðið að kaupa hann í kjölfarið.

Charleroi fékk hann á 3,5 milljónir evra frá Wolfsburg og seldi hann svo strax aftur með gríðarlegum hagnaði en hann skoraði 20 mörk í Belgíu á síðustu leiktíð.

Grátbað yfirmanninn um að fá Osimhen

Hann er nú kominn með 8 mörk í 11 leikjum fyrir Lille á þessari leiktíð.

„Ég fór til Lagos að horfa á HM U17 ára. Ég vildi fá hann eftir að hafa séð hann í einum leik en verðið á honum var mjög hátt miðað við 17 ára leikmann. Ég talaði við yfirmann minn á hverju kvöldi og grátbað hann um að leyfa mér að fá þennan leikmann inn og sagði honum að hann yrði einn sá besti í Evrópu eftir tvö ár," sagði Campos.

„Hann fór á endanum til Wolfsburg og ég kíkti þangað til að horfa á hann spila. Hann spilaði stundum bara fimm mínútur og jafnvel tvær mínútur í sumum leikjum. Ég var alveg heillaður af honum. Hann varð svo veikur og spilaði ekki í fimm eða sex mánuði og fór því til Charleroi í Belgíu. Tveimur mánuðum síðar þá fékk ég hann til Lille sem var frábært. Ég missti hann frá mér en náði honum aftur."

„Ef allt gengur eðlilega í lok tímabils þá mun hann fara í eitthvað stórt félag, því hann er eins og köttur. Þú skilur hvað ég meina, þegar þú lætur kött fá bolta og allt það. Hann er magnaður. Hann ræðsit á hvern einasta bolta á síðustu tuttugu metrunum. Hvern einasta bolta, svona eins og köttur myndi gera!"
sagði Campos um Osimhen.


Athugasemdir
banner
banner