banner
   lau 09. október 2021 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stökk á tækifærið að þjálfa á Íslandi - Ánægjulegt að vinna með Stubbi
Branislav með Stubbi eftir leik í sumar.
Branislav með Stubbi eftir leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Branislav kom til KA þegar Óli Stefán Flóventsson var ráðinn sem þjálfari.
Branislav kom til KA þegar Óli Stefán Flóventsson var ráðinn sem þjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Úr einkasafni
Branislav Radakovic er kannski ekki nafn sem margir á Íslandi kannast vel við. Hann hefur aftur á móti verið að gera það gott í fótboltanum hér á landi.

Branislav er frá Serbíu en hefur undanfarin ár starfað við markvarðarþjálfun á Akureyri, hjá KA. Í sumar starfaði hann með markverðinum sem kom hvað mest á óvart, Steinþóri Má Auðunssyni - betur þekktur sem Stubbur.

Stubbur kom óvænt inn í markið hjá KA og var frábær heilt yfir. Hann var að spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild.

„Já, Stubbur kom skemmtilega á óvart. Hann kom frá Magna og átti að vera varamarkvörður fyrir Kristijan Jajalo. Svo gerðist það að Jajalo handleggsbrotnaði og hann gat ekkert spilað. Stubbur fékk tækifæri og hann nýtti sér það," segir Branislav við Fótbolta.net.

„Hann varðist frábærlega allt tímabilið og kom öllum á óvart. Við unnum vel saman allt undirbúningstímabilið. Ég hjálpaði honum og hann náði að bæta sig heilmikið. Hann hélt oft hreinu og var maður leiksins."

„Það var mjög ánægjulegt að vinna með honum. Hann er frábær náungi og góður markvörður. Hann fylgdi öllum mínum fyrirmælum og lagði mikið á sig. Hann var mjög staðráðinn í að standa sig vel og þess vegna gerði hann það."

Þannig byrjaði saga mín hjá KA
Eftir að Branislav lagði hanskana á hilluna, þá sneri hann sér að þjálfun markvarða. Hann er með UEFA-A þjálfaragráðu. Hann starfaði í Serbíu og Grikklandi, og sem markvarðarþjálfari U17 landsliðs Serbíu áður en hann samdi við KA fyrir þremur árum síðan.

Hvernig endar serbneskur markvarðarþjálfari á Akureyri?

„Þegar Óli Stefán (Flóventsson) tók við KA þá var hann að leita að markvarðarþjálfara. Ég þekkti Milan Jankovic og hann spurði mig hvort ég hefði áhuga á því að koma til Íslands að þjálfa. Það var áhugavert að mínu mati; ný áskorun. Þannig byrjaði saga mín hjá KA," segir Branislav, en hann ákvað að stökkva á tækifærið eftir að samningur hans við FC Vojvodina í Serbíu rann út.

Jankó og Óli Stefán unnu saman í Grindavík, áður en Óli Stefán tók við KA. Branislav hélt áfram að vinna hjá KA eftir að Óli yfirgaf félagið á miðju tímabili 2020.

Hver er besti markvörður í heimi?
Það er nú varla hægt að ræða við markvarðarþjálfara án þess að spyrja hver sé besti markvörður í heimi. Branislav fékk auðvitað þá spurningu.

„Að mínu mati er Gianluigi Donnarumma besti markvörður heims í augnablikinu."

Ekki slæmt val; Donnarumma var besti leikmaður EM í sumar þegar Ítalía varð Evrópumeistari. Eftir mótið samdi markvörðurinn stóri og stæðilegi við Paris Saint-Germain.

Vonast til að vera áfram í KA
Branislav vonast til að vera áfram hjá KA á næsta ári og vinna áfram með markvörðum félagsins.

Hér að neðan má hlusta á viðtal við Arnar Grétarsson, núverandi þjálfara KA, þar sem hann ræðir um Stubb meðal annars.
Útvarpsþátturinn - Landsliðið, Arnar Grétars og Pepsi Max
Athugasemdir
banner
banner
banner