Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 09. nóvember 2017 10:30
Magnús Már Einarsson
Albert Guðmunds: Flestir þarna að spila í La Liga
Albert er fyrirliði U21 landsliðsins.
Albert er fyrirliði U21 landsliðsins.
Mynd: Raggi Óla
U21 landslið karla á fyrir höndum erfiðan leik gegn Spánverjum í undankeppni EM í kvöld. Ísland er með fjögur stig eftir þrjá leiki í undankeppninni á meðan Spánverjar hafa unnið báða sína leiki til þessa.

„Við eigum séns. Við þurfum að eiga góðan dag og spila vel bæði varnar og sóknarlega. Við þurfum að nýta okkar tækifæri. Þau verða kannski ekki mörg en við þurfum að nýta þau vel," sagði Albert Guðmundsson, fyrirliði U21 landsliðsins, við Fótbolta.net.

Eftir tap gegn Albaníu í september þá vann Ísland lið Slóvakíu í síðasta mánuði og gerði jafntefli við Albaníu.

„Við erum farnir að þekkja betur inn á hvorn annan og erum að slípast saman. Við erum að byggja upp gott lið og það verða engar afsakanir í leiknum. Það mun reyna mikið á samvinnuna, hlaupagetuna og varnarleikinn."

Spánverjar hafa framleitt mjög marga öfluga fótboltamenn undanfarin ár. Eins og sjá má á leikmannahópi þeirra þá koma leikmennirnir úr öflugum félögum.

„Mér skilst að flestir þarna séu að spila í La Liga. Það eru nokkrir þarna frá Real Madrid og það er einn frá Barcelona. Þetta eru nöfn en það eru alltaf 11 leikmenn sem spila inn á vellinum. Við erum líka með 11 leikmenn og það gerir okkur að jafningjum og við eigum séns," sagði Albert.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 að íslenskum tíma. Leikið er í Murcia en reiknað er með því að margir áhorfendur láti sjái sig.„Það á að vera fullt í stúkunni og það er búist við á bilinu 20-30 þúsund manns. Maður hefur ekki upplifað svona stóran leik áður með landsliðinu og þetta verður væntanlega skemmtilegt," sagði Albert.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner