Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 09. nóvember 2022 12:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hafa leikmenn þakkað fyrir að fá 100.000 krónur á stig?"
Þorgrímur Þráinsson.
Þorgrímur Þráinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á HM í Rússlandi.
Á HM í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorgrímur Þráinsson, fyrrum starfsmaður hjá KSÍ, ritaði í gær pistil í kjölfarið á því málefni sem hefur verið rætt um síðustu daga.

Landsliðskonur hafa gagnrýnt að ekki sé samræmi í viðurkenningum KSÍ til landsliðsfólks og í kjölfarið hefur myndast stór umræða í samfélaginu.

Dagný Brynjarsdóttir benti á að hún og Glódís Perla Viggósdóttir hafi ekki fengið sérmerkta treyju þegar þær voru búnar að ná 100 landsleikjum. Málið hefur vakið mikla athygli.

Í kjölfarið steig Margrét Lára Viðarsdóttir fram og sagðist aldrei hafa fengið tækifæri til að kveðja almennilega þegar hún lagði landsliðsskóna á hilluna.

Sjá einnig:
Vanda segir umræðu síðustu daga stinga sig í hjartað

Þorgrímur, sem starfaði lengi í kringum karlalandsliðið, skrifar langan pistil á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hann spyr: Hvenær þakkar maður fyrir sig, hverjum þakkar maður og af hverju?

„Hafa leikmenn landsliðsins þakkað KSÍ fyrir að greiða þeim 100.000 krónur á stig, þ.e. 300.000 krónur fyrir sigur í keppnisleik, burtséð frá því hvort þeir spila eða ekki? Þakka leikmenn KSÍ fyrir að veita þeim styttu (áður armbandsúr) fyrir að hafa spilað 50 landsleiki og gefa þeim málverk eftir 100 landsleiki? Ég hef aldrei heyrt um þakkarbréf frá landsliðsmanni í kjölfar þessara höfðinglegu gjafa. Þakka leikmenn KSÍ og landsliðsþjálfurum fyrir að gefa þeim tækifæri á stærsta sviðinu, lokakeppni þar sem alla dreymir um að vera? Ógleymanleg augnablik," skrifar Þorgrímur og tekur upp hanskann fyrir starfsfólki KSÍ. Hann segir að mistök gerist þegar fólk er undir álagi.

„Vissulega mætti vera samræmi í „þakkargjörð“ en sumir sýna hreinlega meira frumkvæði en aðrir, á öllum sviðum. Því ber að fagna og verður þá vonandi öðrum til eftirbreytni. Ég gaf leikmönnum landsliðsins oft bækur en taldi ekki að neinir aðrir landsliðshópar væru hlunnfarnir. Og leikmenn landsliðsins gáfu mér og fleiri starfsmönnum rándýrt úr árið 2016."

„Það get ég staðfest, hafandi unnið með landsliðinu í fótbolta í 14 ár, að starfsfólk KSÍ leggur sig 100% fram daglega og miklu meira en það. Mistök geta átt sér stað þegar fólk er undir álagi. Við gerum öll mistök og vissulega má samræma eitt og annað, eftir ábendingar. Skrifstofa KSÍ er undirmönnuð, það vita þeir sem vilja, og starfsfólkið er undir gríðarlegu álagi alla daga. Þegar ég sat fundi ár eftir ár með fulltrúum annarra knattspyrnusambanda þá göptu fulltrúarnir þegar starfsmannafjöldi KSÍ var nefndur. Í ljósi umsvifanna og árangursins þyrfti líklega að bæta við tíu starfsmönnum á skrifstofunni, ef ekki fleirum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt stutt sé í að einhverjir bugist og yfirgefi svæðið."

„Sífellt fleiri kroppa í KSÍ og starfsfólkið getur ekki borið hendur fyrir höfuð sér en situr undir ásökunum. Auðvitað eiga formaður og framkvæmdastjóri að svara fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi og það er misvel gert en starfsmenn líða fyrir álagið og ásakanirnar."

Þorgrímur þakkar því starfsfólki sem hann vann með hjá KSÍ. „Góðverkin sem þetta fólk hefur gert eru óteljandi og hafa sem betur fer ekki ratað í fjölmiðla. Þið eruð öll dásamleg. Ég endurtek að við gerum öll mistök, oft og mörgum sinnum en án þeirra værum við hvorki að þróast né þroskast. Við getum alltaf gert betur. Jákvæðar ábendingar skipta máli. Samfélagið í dag er að mörgu leyti súrt. Það er eins og fólk séu sífellt að leita uppi mistök annarra til að geta blásið í herlúðra. Hverjum þjónar það?"

Hægt er að lesa pistil Þorgríms í heild sinni hér fyrir neðan. Hann var í viðtali á Bylgunni í morgun þar sem hann sagðist ekki vera að skjóta á einn eða neinn með pistli sínu, það eigi að vera sama umgjörð hjá strákunum og stelpunum. Hann hafi verið að skrifa um þakklætið. „Hennar færsla vakti mig til um­hugsunar, um þakklætið," sagði Þorgrímur um færslu Dagnýjar.


Athugasemdir
banner
banner
banner