Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   sun 10. maí 2020 09:50
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Mörg lið hafa verið að 'svindla' á æfingareglunum"
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í gær ræddu Elvar Geir og Tómas Þór um að mörg íslensk meistaraflokkslið væru að 'svindla' á þeim takmörkunum sem eiga að vera í gildi á æfingum.

Leyfilegt er núna að æfa í afmörkuðum sjö manna hópum en fara verður eftir tveggja metra reglunni. Þessar takmarkanir hafa verið í gildi í viku en sífelldar ábendingar berast fjölmiðlamönnum um að lið séu að víkja verulega frá þessum reglum.

„Maður er búinn að heyra margar sögur af því að hin og þessi lið séu ekki að hlýða Víði upp á tíu. Það virðast vera ansi mörg lið miðað við ábendingarnar, sögurnar, snappchöttin og myndirnar sem er verið að senda," segir Elvar.

„Það hlýtur að vera pirrandi fyrir þá þjálfara sem fara eftir einu og öllu að heyra af því að önnur lið séu að víkja vel út frá þessum reglum. Ég held að allir sem séu í þessum fótboltabransa viti af því að það er verið að gera það."

Tómas hafði einnig fengið mörg skilaboð um að lið séu ekki að fara eftir reglunum.

„Ég hafði ekki undan í morgun að taka við sögum um að hinir og þessir væru að æfa ellefu gegn ellefu eða sjö gegn sjö, æfingar í fullum ´’kontakt’. Þarf Víðir að mæta með bolluvöndinn og rassskella menn?" segir Tómas.

Vonandi komast æfingar í eðlilegt horf sem fyrst
Eins og staðan er núna ættu æfingar að vera komnar í eðlilegt horf þann 25. maí. Búið er að stækka skrefin og fótboltaþjálfarar vonast til þess að hægt sé að flýta fyrir því að æfingar séu heimilaðar með hefðbundnum hætti.

„Það er ekki spurning. Auðvitað vonumst við til þess að hægt sé að flýta fyrir og hefja venjulegar æfingar fyrr. Það er draumurinn," segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, en hann var í viðtali í þættinum.

Hann segir að það hafi þó gengið vel hjá Fjölni að fara eftir settum reglum.

„Þetta er skemmtileg áskorun. Við Fjölnismenn erum með stórt svæði sem hentar vel í að æfa í þessum sjö manna hópum. Við hlýðum Víði."

Verið rosalega þægir
Á æfingum hjá Íslandsmeisturum KR er hver hópur með sinn inngang að æfingasvæðinu. Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, var gestur þáttarins.

„Þessi æfingavika hefur verið sérstök en það er geggjað að vera byrjaðir að æfa aftur. Það er frábært að mæta aftur út á völl. Við æfum í sjö manna hópum og hver hópur er með sinn ingang inn á æfingasvæðið. Klefinn er lokaður en það er nostalgía í því að mæta klæddur út á völl og hitta strákana," segir Atli.

Atli hefur heyrt af því að önnur lið séu að víkja frá reglum en segir að KR-ingar fari algjörlega eftir fyrirmælum.

„Við höfum verið rosalega þægir. Ég hef verið einn í átta vikur og ekki hitt neinn. Við höfum svo núna í vikunni verið í sendingaæfingum, skot á mark og mikið af sprettum."
Ótímabær spá fyrir Pepsi Max byggð á sandi - Blaut tuska fyrir Fjölni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner