sun 10. maí 2020 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Slegið í gegn með Leeds: Er Ben White tilbúinn í bestu liðin?
Ben White.
Ben White.
Mynd: Getty Images
Ian Harte.
Ian Harte.
Mynd: Getty Images
Ian Harte, sem spilaði með Leeds United í ensku úrvalsdeildinni um átta ára skeið frá 1996 til 2004, hefur miklar mætur á miðverðinum Ben White.

White er 22 ára gamall og hefur verið mikilvægur hlekkur í hjarta varnarinnar hjá Leeds. Hann er búinn að spila allar mínúturnar í Championship-deildinni á leiktíðinni, en hann er í láni hjá Leeds frá Brighton.

Harte er mjög hrifinn af því sem hann hefur séð frá White og telur hann nægilega góðan fyrir bestu lið ensku úrvalsdeildarinnar, þó hann hafi ekki verið talinn nægilega góður fyrir Brighton áður en þetta tímabil hófst.

„Þvílíkur leikmaður sem hann er; hann er mjög góður á boltann og hefur mikinn hraða."

„Hann lenti í smá vandræðum gegn Aleksandar Mitrovic (sóknarmanni Fulham), en heilt yfir hefur hann verið framúrskarandi. Leikmaður með hans gæði er nægilega góður fyrir eitt af fjórum bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar," sagði Harte í samtali við Football League World.

Á þessu tímabili hefur White öðlast mikla reynslu og fengið góða leiðsögn hjá Marcelo Bielsa. Harte sér ekki fyrir sér að hann komi aftur á næstu leiktíð, hann verði áfram hjá Brighton eða verði keyptur annað fyrir háa upphæð.

White er samningsbundinn Brighton til 2022, en hann hefur verið orðaður við félög eins og Manchester United og Liverpool.

Leeds var á toppi Championship-deildarinnar þegar hún var stöðvuð í mars. Mikil óvissa er í gangi í enska boltanum og hvort verði hægt að halda áfram á þessu tímabili. Stuðningsmenn Leeds vonast auðvitað til að sjá sitt lið í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, í fyrsta sinn síðan 2004.

Sjá einnig:
Brighton hafnaði tilboði frá fimm ára stuðningsmanni Leeds

Athugasemdir
banner
banner
banner