sun 10. maí 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Williams hætt í fótbolta - Fór næstum til Real en endaði í vörugeymslu
Williams var hjá Brescia í eitt ár og skoraði mikið af mörkum þrátt fyrir að spila sem varnarmaður.
Williams var hjá Brescia í eitt ár og skoraði mikið af mörkum þrátt fyrir að spila sem varnarmaður.
Mynd: Getty Images
Hún var mikilvægur hlekkur í liði Birmingham sem stríddi stórliðunum þremur (Arsenal, Man City og Chelsea) í ensku kvennadeildinni á síðustu leiktíð.
Hún var mikilvægur hlekkur í liði Birmingham sem stríddi stórliðunum þremur (Arsenal, Man City og Chelsea) í ensku kvennadeildinni á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Hin 25 ára gamla Paige Williams er hætt í fótbolta vegna óöryggis í starfi og ætlar að einbeita sér að slökkviliðsstörfum.

Williams var leikmaður Birmingham þar til í fyrra en á tíma sínum hjá Brescia vann hún bæði ítölsku deildina og bikarinn. Þar að auki hefur hún leikið fyrir Everton og Verona, þar sem hún dvaldi á svipuðum tíma og Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir.

Á Englandi hefur Williams tvisvar sinnum tapað í úrslitum FA bikarsins og var hún partur af sterku liði Birmingham sem endaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

„Síðasta sumar var brjálað. Ég sleit krossband og fattaði að án fótboltans þá ætti ég ekki neitt. Það hræddi mig mikið. Ég hafði aldrei þénað mikið og var því ekki með neinn sparnað, ég er ekki með neinar gráður svo ég spurði sjálfa mig 'Í hverju gæti ég verið góð?'" sagði Williams við BBC Sport.

„Það var móðir mín sem stakk uppá slökkviliðinu. Slökkviliðið er öðruvísi lið. Stundum þarf maður að vera eigingjarn í fótbolta en í slökkviliðinu leggur maður gríðarlega mikið á sig fyrir liðsfélagana. Ég elska þetta starf."

Williams var mikilvægur hlekkur í yngri landsliðum Englands og var í baráttu um að komast í A-landsliðshópinn. Hún var næstum gengin til liðs við Real Madrid í fyrra en endaði á því að starfa á lager í vörugeymslu.

„Ég æfði með fullt af liðum og á tímapunkti hélt ég að ég væri að ganga til liðs við Real Madrid. Einn morguninn var ég á leið á æfingu og labbaði framhjá Marcelo sem heilsaði mér.

„Á endanum tókst félaginu ekki að lána út leikmann og þar af leiðandi var ekkert pláss fyrir mig. Þegar skiptin gengu ekki upp hugsaði ég með mér að ég gæti verið í nákvæmlega sömu stöðu eftir fimm eða sex ár, með ekkert á bak við mig. Móðir mín sagði að ég þyrfti að finna mér örugga vinnu og var ég ráðin til starfa í vörugeymslu Farmfoods.

„Þar var ég með fimmtíu karlmönnum í lítilli og skítugri vörugeymslu að bera kassa af Coca Cola í sendiferðabíl. Það kom sér vel vegna þess að ég styrkti gripið mitt til muna, sem reyndist svo mikilvægur þáttur í inntökuprófinu fyrir slökkviliðið."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner