banner
   þri 10. maí 2022 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Feyenoord og Roma fá 3000 miða á úrslitaleikinn
Mynd: Getty Images

Feyenoord og Roma eigast við í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar miðvikudaginn 25. maí. Leikurinn fer fram í Tirana, höfuðborg Albaníu, á leikvangi sem tekur ekki nema rétt rúmlega 22 þúsund manns í sæti.


Þetta finnst stjórnendum Feyenoord óskiljanleg ákvörðun og birti félagið yfirlýsingu í gær þar sem umgjörð UEFA í kringum úrslitaleikinn er gagnrýnd.

Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að félögin sem mætast fá aðeins 3000 miða hvort til að gefa stuðningsmönnum sínum. Hinir 16 þúsund miðarnir fara ýmist til heimamanna sem vilja horfa á leikinn, annarra gesta á vegum UEFA og stuðningsmanna sem kaupa miða beint í gegnum vefsíðu UEFA.

Liðin mætast í fyrsta úrslitaleik í sögu Sambandsdeildarinnar og finnst stjórn Feyenoord skrýtið að ekki hafi verið valinn stærri leikvangur þar sem um tvö stórlið er að ræða með mikið magn stuðningsmanna á bakvið sig.

Líklegt er að stuðningsmenn beggja félaga muni fjölmenna til Albaníu og gæti miðbær Tirana komið ansi laskaður út úr nóttinni.


Athugasemdir
banner