Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 10. júní 2022 14:45
Fótbolti.net
Hausverkur landsliðsþjálfarans: Þessar myndum við velja
Icelandair
Valið er ekki einfalt.
Valið er ekki einfalt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karólína Lea og Sveindís Jane eru báðar á leið á sitt fyrsta stórmót.
Karólína Lea og Sveindís Jane eru báðar á leið á sitt fyrsta stórmót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís er algjör lykilmaður.
Glódís er algjör lykilmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara er klár í slaginn og það eru frábær tíðindi.
Sara er klár í slaginn og það eru frábær tíðindi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda er gríðarlega efnileg.
Áslaug Munda er gríðarlega efnileg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markverðirnir Telma og Cecilía.
Markverðirnir Telma og Cecilía.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður Elín Metta í hópnum?
Verður Elín Metta í hópnum?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sif er gríðarlega mikilvæg fyrir liðið.
Sif er gríðarlega mikilvæg fyrir liðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ásbjörnsdóttir hefur gert sterkt tilkall með frammistöðu sinni í sumar.
Katrín Ásbjörnsdóttir hefur gert sterkt tilkall með frammistöðu sinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif hefur leikið frábærlega með Val.
Arna Sif hefur leikið frábærlega með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Amanda er aðeins 18 ára gömul.
Amanda er aðeins 18 ára gömul.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg getur bæði leikið sem miðvörður og bakvörður.
Ingibjörg getur bæði leikið sem miðvörður og bakvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný er sú eina sem er að glíma við meiðsli þessa stundina.
Guðný er sú eina sem er að glíma við meiðsli þessa stundina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áfram Ísland!
Áfram Ísland!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á laugardag mun Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, tilkynna um hópinn sem mun fara til Englands í næsta mánuði og keppa þar á lokamóti EM fyrir Íslands hönd.

Sjaldan ef aldrei hefur íslenska landsliðið verið eins spennandi og núna. Gaman verður að sjá hvernig liðinu mun vegna á stóra sviðinu.

En hvaða leikmenn munu fara?

Þetta er svo sannarlega hausverkur fyrir Steina landsliðsþjálfara og munu nokkrar vera mjög súrar og svekktar að fá ekki að fara með. Samkeppnin er mikil og því ber að fagna, þó að það verði auðvitað mikið svekkelsi fyrir ákveðna leikmenn að fara ekki með í flugvélinni til Englands.

Við á Fótbolta.net ákváðum að setja okkur í erfið spor landsliðsþjálfarans og velja okkar 23 manna hóp til þess að fara með til Englands. Spurningin sem við settum fram var einföld: Ef þú værir landsliðsþjálfari, hvaða leikmenn myndir þú taka með? Þetta er sem sagt ekki spá um það hvað Steini mun gera, heldur val hjá okkar starfsfólki.

Það eru margir leikmenn sem eru pottþétt að fara með og svo eru ákveðin spurningamerki. Guðný Árnadóttir, varnarmaður AC Milan, er sú eina sem er tæp fyrir mótið. Það er ekki búið að útiloka að hún taki þátt, en hún er tæp vegna meiðsla. Aðrar - sem koma til greina - eru allar heilar að sögn landsliðsþjálfarans.

Alexandra Bía Sumarliðadóttir
Eftir að hafa farið fram og til baka og í nokkra hringi við að setja saman hópinn þá lítur þetta svona út hjá mér. Stór hluti hópsins er nokkuð fyrirfram augljós en það eru örfá sæti sem eru það alls ekki.

Markverðirnir voru að mínu mati engin spurning. Sandra, Cecilía og Telma, í þessari röð. Sandra er búin að vera að spila frábærlega það sem af er tímabili og það eru góðar fréttir fyrir landsliðið svona korter í EM. Auður Scheving gerir tilkall í þriðja sætið en mér finnst Telma standa henni framar eins og staðan er í dag, hún sýndi það í Meistaradeildinni í vetur að hún verðskuldar þetta sæti.

Helsta spurningarmerkið í hópi varnarmanna er Guðný Árnadóttir og hvort hún verði orðin klár. Ef svo er ekki þá tæki ég Natöshu Moraa Anasi í hennar stað. Áslaug Munda fær sæti í hópnum en það er mikið fagnaðarefni að hún sé snúin til baka og sé klár. Arna Sif Ásgrímsdóttir má vera svekkt að fá ekki sæti í hópnum enda búin að eiga glimrandi sumar í Bestu deildinni, en samkeppni miðvarðanna er bara of hörð. Ásta Eir Árnadóttir hefur líka verið að spila vel en situr eftir heima með sárt ennið.

Miðjumennirnir voru eins og markverðirnir engin spurning í mínum augum. Það þarf ekki að ræða mikilvægi Söru Bjarkar neitt frekar, reynslan hennar og leiðtogahæfnin sem hún býr yfir er alltaf að fara að reynast okkur dýrmæt, þó að við hefðum viljað sjá hana spila fleiri mínútur með Lyon á tímabilinu. Ég vil taka Selmu Sól með en hún er búin að vera að spila vel í Noregi og hefur sýnt góða frammistöðu fyrir landsliðið.

Sóknarlínan var flóknasta valið. Ég skil Elínu Mettu eftir heima en á samt frekar erfitt með það. Ég byggi þá ákvörðun á frammistöðu hennar það sem af er tímabili og að það sást lítið til hennar í vetur. Við vitum samt öll hvaða gæðum hún býr yfir og höfum séð hana spila frábærlega fyrir landsliðið svo ef Steini velur hana þá hef ég trú á því að hún sýni okkur af hverju hún eigi að vera þarna og muni reynast okkur vel. Ég get ekki annað en valið Hlín Eiríks í hópinn en hún kemur sjóðheit frá Svíþjóð þar sem hún hefur spilað frábærlega og skorað mörk. Katrín Ásbjörns hefur líka verið frábær með Stjörnunni í sumar og gerir sterkt tilkall en hún fær ekki sæti í hópnum hjá mér í þetta skiptið.

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Telma Ívarsdóttir.

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir.

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Framherjar: Amanda Andradóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Arnar Laufdal Arnarsson
Það er engin spurning með markverðina, þessar þrjár eiga að fara. Mér finnst Cecilía ótrúlega spennandi markvörður og mér finnst að hún eigi að fá tækifæri til að vera aðalmarkvörður á þessu móti. Sandra er búin að vera góð í sumar, en Cecilía er einn efnilegasti markvörður í heimi og er tilbúin í djúpu laugina.

Við erum vel sett varnarlega og erum með gríðarlega miðverði. Það verður áhugavert að sjá hver mun leika við hlið Glódísar í hjarta varnarinnar. Guðrún hefur leikið mjög vel og við erum líka með Ingibjörgu sem er að spila með einu besta liðinu í Noregi. Ingibjörg getur líka leyst hægri bakvörðinn og gert það mjög vel.

Karólína Lea hefur lítið spilað með Bayern, en hún spilar alltaf vel með landsliðinu og ég vil sjá hana í stóru hlutverki á þessu móti. Hún gegnir mikilvægu hlutverki í liðinu og er leikmaður með mikinn sköpunarmátt. Hún er með eiginleika sem aðrir leikmenn liðsins hafa ekki.

Ég elska breiddina sem við höfum fram á við. Þar erum við leikmenn sem geta leyst mismunandi stöður og er það virkilega jákvætt. Ég tek bæði Elínu og Berglindi með, og Svövu Rós líka.

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Telma Ívarsdóttir.

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir.

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Framherjar: Amanda Andradóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Elín Metta Jensen, Hlín Eiríksdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þegar ég hugsaði þetta fyrst, þá hélt ég að þetta yrði frekar einfalt. En annað kom á daginn.

Markverðirnir, það þarf ekkert að hugsa það meira. Þessar þrjár fara. Sandra er númer eitt og Cecilía er númer tvö. Auður Scheving var í baráttunni við Telmu um síðasta sætið, en Auður er að stíga upp úr meiðslum og missir þess vegna af í þetta sinn. Telma byrjaði ekki vel síðasta sumar er hún fékk byrjunarliðssætið hjá Blikum, en mér fannst hún vaxa mikið og hún verðskuldar þetta sæti.

Þegar litið er yfir varnarmennina þá er það kannski stærst að Áslaug Munda er þar í mínum hóp. Hún er búin að jafna sig eftir meiðsli og hefur komið af miklum krafti inn í Bestu deildina. Hún getur leyst margar stöður, meðal annars vinstri bakvörð. Hún er einn efnilegasti leikmaður landsins og fær góða reynslu ef hún fer á þetta mót. Því miður er ekki pláss fyrir Örnu Sif Ásgrímsdóttur, Önnu Maríu Baldursdóttur eða Natöshu Moraa Anasi, sem hafa allar verið mjög góðar í Bestu deildinni í sumar. Það er hægt að tala um að þær hafi leikið betur eða jafnvel og Sif Atla, en Sif er ein sú mikilvægasta í þessum hópi og það er ekki hægt að skilja hana eftir. Sif er gríðarlegur leiðtogi í hópnum og það er ekki hægt að skilja hana eftir. Berglind Rós Ágústsdóttir gerði einnig tilkall hjá mér en hún hefur verið að leika miðvörð með Örebro í Svíþjóð.

Ef Guðný er ekki heil, þá myndi ég taka Ástu Eir Árnadóttur úr Breiðabliki inn í hópinn.

Á miðsvæðinu skrái ég niður sex leikmenn sem ég sé fyrir mér að geti leyst stöðurnar þrjár inn á miðsvæðinu. Það er frábært að fá Söru Björk aftur inn og hún á alltaf að fara, þó hún sé ekki í mikilli leikæfingu. Eins góðan leiðtoga er erfitt að finna og hún er alltaf að fara að gefa mikið af sér þó hún spili ekki endilega 90 mínútur í öllum leikjum. Svo er Selma Sól Magnúsdóttir inni því hún hefur verið að taka gífurlega góð skref með Rosenborg, einu besta liðinu í Noregi. Ég myndi segja að það væri áhyggjuefni að Karólína Lea sé ekki búin að spila mikið með Bayern en ef það er hægt að treysta á eitthvað, þá er það að hún mæti og geri vel í landsleikjum.

Fremst á vellinum fannst mér erfiðast að velja. Að mínu mati eru Berglind Björg og Elín Metta okkar bestu níur, en staða þeirra er áhyggjuefni. Berglind er búin að vera mikið meidd og Elín hefur verið lengi í gang með Val. Ég myndi samt velja þær báðar. Þær þekkja þennan hóp vel og tengja við hann, sérstaklega Berglind sem er búin byrja síðustu landsleiki og gera það vel. Ég get vel skilið það að Katrín Ásbjörnsdóttir, Sandra María Jessen og Svava Rós Guðmundsdóttir verði mjög svekktar ef þær missa af þessum hóp, þær gera allar sterkt tilkall.

Annars finnst mér það líka áhyggjuefni að Agla María, sem er vanalega byrjunarliðsmaður í okkar liði, sé bara búin að byrja einn leik í sænsku úrvalsdeildinni. Það er hægt að færa rök fyrir því að hún eigi ekki að vera í þessum hóp, en hún býr yfir svo miklum gæðum að ég get ekki sleppt því að velja hana. Hlín er búin að leika vel í Svíþjóð og Amanda er 18 ára gömul og mun fá mikla og góða reynslu af því að fara á þetta mót. Hún getur líka verið ákveðinn X-faktor inn af bekknum.

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Telma Ívarsdóttir.

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir.

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Framherjar: Amanda Andradóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Elín Metta Jensen, Hlín Eiríksdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Sigríður Dröfn Auðunsdóttir
Meirihluti leikmannanna er 'auto' og engin spurning að þær eiga að vera í hópnum. Það hefur verið umræða um það hvort Hlín Eiríks komist í hópinn, en mér finnst það ekki eiga að vera spurning. Hún er búin að eiga stórgott tímabil í Svíþjóð og búin að vera skora mikið.

Bæði Elísa og Ásta Eir eru búnar að byrja mjög vel í Bestu deildinni. Ég vel Elísu fram yfir Ástu en ef Guðný er meidd, þá er Ásta Eir inni. Áslaug Munda er einnig að komast í góðan gír eftir að hafa spilað lítið sem ekkert í vetur og hún er löngu búin að sýna Steina og þjóðinni hvað í henni býr; hún mun klárlega vera lykilmaður í þessu liði næstu árin.

Elín Metta hefur ekki verið að spila á því stigi sem hún hefur áður gert í byrjun sumars og ekki litið sannfærandi út, en á sama tíma er Katrín Ásbjörns búin að vera spila mjög vel og virðist vera með mikið sjálfstraust sem ég held að sé rosalega mikilvægt fyrir framherja að hafa. Mér finnst hún hafa verið mjög kraftmikil og sýnt það í sumar að hún er einn besti sóknarmaður deildarinnar.

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Telma Ívarsdóttir.

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir.

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir.

Framherjar: Amanda Andradóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þetta eru ekki nema tvær breytingar frá upprunalegum hópi fyrir síðasta verkefni. Ég er með Örnu Sif, besta leikmann Bestu deildarinnar, og Áslaugu Mundu í mínum hópi. Áslaug með eina hornspyrnu beint á pönnuna á Örnu, ertu að lesa þetta Steini? Guðný Árnadóttir er víst mjög tæp og ég tek Áslaugu inn sem bakvörð í hennar stað. Natasha situr eftir í mínum hópi en ég held nú samt að Steini velji hana í sinn lokahóp. Ég er á því að Áslaug Munda verði alltaf í lokahópnum og það verður mjög erfið ákvörðun fyrir Steina að ákveða hver verður skilin eftir heima ef Guðný er klár í slaginn.

Markverðirnir eru að mínu mati á lás og miðjumennirnir líka.

Ég var ekki viss með Elínu Mettu þegar ég sá hana byrja á bekknum gegn Breiðabliki í deildinni fyrr á tímabilinu. En hún kom svo aftur í Valsliðið eftir það og það er eitthvað sem segir mér að hún eigi eftir að skora lykilmark í riðlinum.

Hlín Eiríksdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir voru þær sem voru hvað næst þessum lokahóp hjá mér en sitja eftir heima.

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Telma Ívarsdóttir.

Varnarmenn: Arna Sif Ásgrímsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sif Atladóttir.

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Framherjar: Amanda Andradóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Elín Metta Jensen, Svava Rós Guðmundsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Niðurstaðan:
Við erum öll sammála um að 18 leikmenn eigi að vera í hópnum, en svo erum við ekki alveg sammála um hin fimm sætin. Þetta eru leikmennirnir sem við vorum öll sammála um:

Markverðir: Cecilía Rán Rúnarsdóttir (Bayern München), Sandra Sigurðardóttir (Valur) og Telma Ívarsdóttir (Breiðablik).

Varnarmenn: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Breiðablik), Glódís Perla Viggósdóttir (Bayern München), Guðrún Arnardóttir (Rosengård), Hallbera Guðný Gísladóttir (Kalmar), Ingibjörg Sigurðardóttir (Vålerenga), Sif Atladóttir (Selfoss).

Miðjumenn: Alexandra Jóhannsdóttir (Breiðablik), Dagný Brynjarsdóttir (West Ham), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Orlando Pride), Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Bayern München), Sara Björk Gunnarsdóttir (Lyon).

Framherjar: Amanda Andradóttir (Kristianstad), Agla María Albertsdóttir (Häcken), Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Brann), Sveindís Jane Jónsdóttir (Wolfsburg).

Það myndi koma á óvart ef einhver af þessum 18 leikmönnum verður ekki í hópnum á morgun, en hverjar taka hin fimm sætin?


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner