fös 10. júní 2022 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heyrðist vel í þjálfurunum - Rúrik segir þetta vera of 'soft'
Þjálfararnir.
Þjálfararnir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum landsliðsmenn sem starfa núna sem sérfræðingar hjá Viaplay.
Fyrrum landsliðsmenn sem starfa núna sem sérfræðingar hjá Viaplay.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið leit illa út gegn San Marínó, slakasta landsliði veraldar, í gærkvöldi. Leikurinn endaði með 0-1 sigri Íslands, en frammistaðan var ekki boðleg gegn eins slökum andstæðing.

Kári Árnason og Rúrik Gíslason, fyrrum landsliðsmenn, fóru yfir leikinn á Viaplay.

Það voru ansi fáir á vellinum í gær og heyrðist vel hvað þjálfararnir voru að kalla inn á völlinn. Sérfræðingunum fannst það ansi 'soft' sem kom frá íslenska varamannabekknum.

Spilað var myndband af því þegar Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari, var að kalla inn á völlinn. Kára og Rúrik fannst það mjög mjúkt hvernig Jói Kalli fór að því miðað við að þarna væri A-landsleikur í gangi.

„Ég er alveg viss um að Kári myndi senda aðeins önnur skilaboð inn á völlinn ef hann væri þjálfari," sagði Rúrik. „Þetta er allt orðið svo 'soft' og vingjarnlegt. Það er eins og þeir þori ekki að gagnrýna leikmenn sína og biðja um almennilegan kraft."

Rúrik tók svo létta eftirhermu. „'Þið eruð fjórir á móti fucking einum, díliði við þetta og gerið það núna'. Ekki 'strákar, þið getið gert betur'. Skilurðu?"

„Ég er alveg viss um að þú sért með mér í þessu. Ég hef heyrt þig gagnrýna menn inn á vellinum," sagði Rúrik.

Núna hefur Ísland unnið sigra gegn Færeyjum, Liechtenstein og San Marínó - þremur af slökustu liðum Evrópu - síðan Arnar Þór Viðarsson tók við liðinu fyrir einu og hálfu ári. Aðrir leikir hafa ekki unnist. Liðið hefur auðvitað gengið í gegnum talsverðar breytingar, en það var allavega ekki mikið jákvætt við frammistöðuna í gærkvöld.

Næsti leikur er gegn Ísrael í Þjóðadeildinni á mánudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner