banner
   fös 10. júní 2022 21:36
Brynjar Ingi Erluson
Man Utd gefst upp á Nunez
Darwin Nunez
Darwin Nunez
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United ætlar ekki að eltast við úrúgvæska sóknarmanninn Darwin Nunez og hefur því ákveðið að skrá sig úr baráttunni en þetta kemur fram í ensku miðlunum í kvöld.

Nunez var funheitur með Benfica á síðustu leiktíð og gerði 34 mörk í 41 leik.

Liverpool hefur rætt við umboðsmann leikmannsins síðustu daga og hefur þegar verið greint frá því að félagið hafi náð samkomulagi við Nunez um kaup og kjör.

Félagið hefur þá lagt fram formlegt tilboð til Benfica en heildarupphæðin er í kringum 85 milljónir punda með bónusgreiðslum.

Man Utd skráði sig í kapphlaupið um hann á dögunum og var greint frá því að Erik ten Hag, stjóri United, hafi rætt við Nunez, en að leikmaðurinn hafi tjáð honum að hann hefði engan áhuga á að semja við United.

Enskir miðlar segja nú frá því að Man Utd hafi ákveðið að skrá sig úr baráttunni og að félagið hafi ekki áhuga á því að fara í kaupstríð við Liverpool.

Það er því fátt sem kemur í veg fyrir að Nunez gangi í raðir Liverpool á næstu dögum.
Athugasemdir
banner
banner