mið 10. júlí 2019 17:00
Fótbolti.net
„Þetta er eins og KSÍ-hófið á sterum''
Sif Atladóttir var tilnefnd sem mikilvægasti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar eftir síðasta tímabil
Sif Atladóttir var tilnefnd sem mikilvægasti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar eftir síðasta tímabil
Mynd: HMG
Landsliðskonan Sif segir frá ýmsu á Heimavellinum
Landsliðskonan Sif segir frá ýmsu á Heimavellinum
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Landsliðskonan Sif Atladóttir var gestur Heimavallarins á dögunum og fór þar yfir ferilinn með þáttstýrunum Huldu Mýrdal og Mist Rúnarsdóttur. Sif átti frábært tímabil fyrir Kristianstad á síðasta ári og var í kjölfarið tilnefnd sem mikilvægasti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar. Hún segir frá viðbrögðum sínum við tilnefningunni og lýsir lokahófi sænska knattspyrnusambandsins í þættinum.

„Það var alveg geggjað. Þetta var mega búst fyrir egóið. En eftir á að hyggja naut ég þess ekki nógu mikið. Ég á rosa erfitt með að taka hrósi en er að vinna í því. Ég á bara að segja takk og halda áfram,“ sagði Sif þegar hún var spurð út í tilnefninguna.

„Þetta var geggjað. Bæði að fá tilnefninguna og vera í þessum hópi, með Caroline Seger og Juliu Karlernäs. Karlernäs átti náttúrulega bombutímabil fyrir meistarana.“

„Sem varnarmaður er þetta ógeðslega stórt. Við fáum ekkert rosalega oft viðurkenningu.“


Verðlaunaafhending fór fram á lokahófi sænska knattspyrnusambandsins, Fotbollsgalan, sem er jafnan mjög glæsilegt. Fólk mætir í sínu allra fínasta pússi og öll umgjörð er mjög flott.

„Þetta er stórt. Þetta er eins og KSÍ (hófið) á sterum. Þetta er rosalegt og það var ótrúlega vel að þessu staðið. Þremur vikum fyrir fæ ég planið. Það er hótel og flug. Ég er sótt og fæ að taka með mér gest. Bjössi fylgir klárlega með, ég er ekki að fara í svona óvissu ein,“ sagði Sif hlæjandi en hún tók eiginmanninn, Björn Sigurbjörnsson, með sér á viðburðinn.

„Ég hafði bara séð þetta í sjónvarpinu. Það voru allir í galadressi og það var ótrúlega gaman að fá að vera þarna. Ég fékk alveg gæsahúð þegar Nilla Fischer tók sína ræðu.“

„Persónulega fyrir mig var þetta ótrúlega stór viðurkenning. Líklega sú stærsta. Að fá að vera forsprakki þarna fyrir liðið mitt. Mér fannst þetta líka vera viðurkenning fyrir okkur í Kristianstad, að eiga leikmann sem var þarna uppi,“
sagði Sif en það var Julia Karlernäs sem hreppti hnossið.

„Ég var lengi fram á kvöldið að reyna að átta mig á social scenarioinu, hvernig það fúnkerar á svona stað. Glódís Perla var þarna uppi og það var rosa gaman að fylgjast með því. En ég sagði þá að ég ætla að fara þarna aftur þegar ég er búin að vinna titil. Það er skemmtilegra með liðinu.“

Hlustaðu á Sif á Heimavellinum.

Heimavöllurinn er einnig á Instagram þar sem knattspyrna kvenna er í forgrunni. Þar eru knattspyrnu kvenna gerð skil á lifandi og fjölbreyttan hátt. Þangað rata helstu fréttir, leikmaður vikunnar er valinn og knattspyrnukonur svara hraðaspurningum svo eitthvað sé nefnt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner