Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mið 10. júlí 2019 10:30
Fótbolti.net
Sif hljóp uppi þjófa í æfingaferð
Sif er hér vinstra megin fyrir miðju
Sif er hér vinstra megin fyrir miðju
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: HMG
Sif Atladóttir lék með meistarflokkum FH, Þróttar og Vals áður en hún fór út í atvinnumennskuna en hún fer yfir ferilinn í nýjasta þætti Heimavallarins. Þar rifjar hún upp ýmsar skemmtilegar minningar frá upphafi ferilsins. Til dæmis þegar hún hljóp uppi þjófa í æfingaferð Þróttar á Spáni.

„Við vorum á Spáni og vorum í svona húsum sem voru á tveimur hæðum nema hvað að þú gast komist upp á svalirnar,“ rifjar Sif upp.

Það var mjög heitt þarna og lyktin af sveittum takkaskóm ekki sérlega spennandi svo Sif og liðsfélagar ákváðu að geyma skó og annan óhreinan æfingafatnað á svölunum.

Það er svo í rútuferð heim á íbúðahótelið sem Sif er litið út um gluggann og bregður við.

„Við spottum þarna krakka í glænýjum takkskóm og það er ekki séns að þetta séu ekki skórnir okkar!“

„Ég rýk út og ætla bara að fá þessa skó til baka. Þetta voru rándýrir skór á þessum tíma. Kostuðu örugglega 10 þúsund krónur eða eitthvað, morðfjár á þessum tíma,“
útskýrir Sif og hlær.

„Ég hljóp nú samt ekki ein út. Krakkarnir komu með mér og þjálfararnir. Ég veit ekki alveg hvað fór í gegnum hausinn á mér þegar ég fór út,“ sagði Sif sem rauk af stað án umhugsunar.

Glöggt auga og góð viðbrögð skiluðu sér þó fyrir Þróttara en Sif og félagar náðu þjófunum og fengu skónna til baka ásamt fleira æfingadóti.

Hægt er að hlusta á Heimavöllinn með Sif hér.

Heimavöllurinn er einnig á Instagram þar sem knattspyrna kvenna er í forgrunni. Þar eru knattspyrnu kvenna gerð skil á lifandi og fjölbreyttan hátt. Þangað rata helstu fréttir, leikmaður vikunnar er valinn og knattspyrnukonur svara hraðaspurningum svo eitthvað sé nefnt.
Athugasemdir
banner
banner