Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
banner
   lau 10. ágúst 2024 17:21
Ívan Guðjón Baldursson
Hákon Rafn varði mark Brentford - Náðu í stig gegn Feyenoord
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Willem II
Það voru margir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu.

Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Brentford í 2-1 sigri í æfingaleik gegn Wolfsburg. Hann hafði ekki mikið að gera en stóð sig vel þegar krafta hans var þarfnast og gat lítið gert til að stöðva Jonas Wind frá því að skora fyrir Wolfsburg.

Brentford tefldi fram ungum leikmönnum og varamönnum líkt og Wolfsburg, eftir að bestu byrjunarlið félaganna gerðu 4-4 jafntefli á dögunum.

Í efstu deild sænska boltans voru Ísak Andri Sigurgeirsson og Arnór Ingvi Traustason í byrjunarliði Norrköping sem vann fjórða deildarleikinn í röð. Norrköping var undir þegar komið var að 90. mínútu leiksins en náði að knýja fram sigur með drauma lokakafla.

Arnór Ingvi spilaði allan leikinn og bar fyrirliðabandið í 2-1 sigri gegn botnliði Vasteräs, á meðan Ísak Andri spilaði fyrstu klukkustundina.

Gísli Eyjólfsson og Birnir Snær Ingason voru þá báðir í byrjunarliði Halmstad sem tapaði á heimavelli gegn toppliði Malmö.

Íslendingalið Norrköping er með 23 stig eftir 18 umferðir, tveimur stigum fyrir ofan Halmstad. Kolbeinn Þórðarson var í leikbanni þegar Gautaborg gerði markalaust jafntefli gegn Varnamo. Gautaborg er stigi á eftir Halmstad og stigi fyrir ofan Varnamo.

Í næstefstu deild í Svíþjóð hélt Adam Ingi Benediktsson hreinu í tíðindalitlum slag á milli Öster og Östersund. Þorri Mar Þórisson var ónotaður varamaður í liði andstæðinganna í Öster.

Í efstu deild í Belgíu steinlágu lærisveinar Freys Alexanderssonar í liði Kortrijk gegn nýliðum Dender sem hafa farið ótrúlega vel af stað á nýju tímabili.

Dender vann 4-1 í dag þar sem Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark Kortrijk en kom engum vörnum við. Kortrijk er með þrjú stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar, en Dender er með sjö stig.

Í fjórðu efstu deild enska boltans, League Two, var Jason Daði Svanþórsson í byrjunarliði Grimsby en þurfti að fara meiddur af velli eftir 30 mínútna leik. Staðan var 1-0 þá fyrir Fleetwood og reyndust það lokatölurnar. Liðin áttust við í fyrstu umferð og því mikil vonbrigði fyrir Jason Daða að meiðast strax.

Rúnar Þór Sigurgeirsson var í byrjunarliði Willem II sem náði jafntefli á útivelli gegn Feyenoord í efstu deild hollenska boltans, þar sem liðin mættust í fyrstu umferð og skoraði Willem úr einu marktilraun sinni sem hæfði rammann.

Að lokum voru Íslendingar sem spiluðu í norska boltanum, þar sem Ham-Kam lagði Haugesund að velli í Íslendingaslag. Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham-Kam og kom Viðar Ari Jónsson inn af bekknum, á meðan Anton Logi Lúðvíksson var ónotaður varamaður hjá Haugesund. Brynjar fór af velli í lok fyrri hálfleiks vegna meiðsla.

Óskar Borgþórsson var í byrjunarliði Sogndal í 1-1 jafntefli gegn Levanger í næstefstu deild, þar sem Sogndal er í fjórða sæti og berst um sæti í efstu deild fyrir næstu leiktíð. Davíð Snær Jóhannsson var þá í leikbanni þegar Álasund vann 1-0 heimasigur gegn Moss.

Brentford 2 - 1 Wolfsburg
1-0 Keane Lewis-Potter
2-0 Frank Onyeka
2-1 Jonas Wind

Halmstad 0 - 1 Malmo

Norrkoping 2 - 1 Vasteras

Dender 4 - 1 Kortrijk

Fleetwood Town 1 - 0 Grimsby

Haugesund 0 - 1 Ham-Kam

Sogndal 1 - 1 Levanger

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner