Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 10. september 2022 19:34
Brynjar Ingi Erluson
Spánn: Lewandowski skoraði fjórða deildarleikinn í röð
Robert Lewandowski skoraði sjötta deildarmark sitt
Robert Lewandowski skoraði sjötta deildarmark sitt
Mynd: EPA
Leikmenn Barcelona og Cadiz ræddu málin meðan leikurinn var stopp
Leikmenn Barcelona og Cadiz ræddu málin meðan leikurinn var stopp
Mynd: EPA
Cadiz 0 - 4 Barcelona
0-1 Frenkie de Jong ('55 )
0-2 Robert Lewandowski ('65 )
0-3 Ansu Fati ('86 )
0-4 Ousmane Dembele ('90 )

Pólski framherjinn Robert Lewandowski skoraði fjórða leikinn í röð er Barcelona vann Cadiz, 4-0, í La Liga í kvöld. Leikurinn var stopp í 40 mínútur eftir að neyðartilfelli kom upp í stúkunni en Börsungar skoruðu tvö mörk eftir pásuna.

Börsungar voru meira og minna með boltann í fyrri hálfleiknum og náðu alveg að skapa sér færi en ekkert sem Jeremías Ledesma, markvörður Cadiz, þurfti að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af.

Gestirnir náðu að slípa leik sinn aðeins í þeim síðari og þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af honum kom Frenkie de Jong liði Barcelona yfir.

Raphinha sá Gavi koma í hlaupið hægra megin í teignum og nýtti það. Gavi kom boltanum fyrir en Ledesma náði ekki að slá boltanum lengra en til De Jong sem mætti á ferðinni og þrumaði honum í netið.

Lewandowski gerði síðan annað mark Barcelona tíu mínútum síðar. Eftir hraða sókn fékk Raphinha boltann í teignum, lagði hann fyrir De Jong sem fór í baráttu við Ledesma og varnarmann Cadiz, en eftir darraðadans var boltinn skoppandi við línuna áður en Lewandowski fleygði sér á hann og skilaði honum í markið.

Þetta er fjórði deildarleikurinn í röð sem Lewandowski skorar en hann er nú með sex mörk í fimm leikjum í La Liga. Mögnuð byrjun hjá honum.

Leikurinn var stöðvaður á 82. mínútu vegna neyðartilfellis sem átti sér stað í stúkunni, fyrir aftan mark Cadiz. Leikmenn heimamanna hjálpuðu sjúkraliðum að huga að manneskjunni með því að koma sjúkrakassa, hjartastilli og börum upp í stúkuna. Bæði lið fóru síðan af vellinum á meðan hugað var að manneskjunni. Einstaklingurinn var síðar fluttur á spítala en 40 mínútum síðar fór leikurinn aftur af stað.

Ansu Fati bætti við þriðja mark Barcelona þremur mínútum eftir pásuna áður en Lewandowski lagði upp fjórða markið fyrir Ousmane Dembele.

Öruggur 4-0 sigur Barcelona í höfn og Börsungar á toppnum með 13 stig en Cadiz án stiga í neðsta sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner