Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   lau 10. október 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áttu ekki séns í íslensku vélina
Icelandair
Ísland vann frábæran sigur á Rúmeníu.
Ísland vann frábæran sigur á Rúmeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við eigum úrslitaleik gegn Ungverjalandi í næsta mánuði.
Við eigum úrslitaleik gegn Ungverjalandi í næsta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rætt var um sigurinn mikilvæga á Rúmeníu í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.

Leikurinn var í undanúrslitum umspilsins fyrir EM næsta sumar. Ísland spilaði mjög vel í leiknum og vann 2-1. Rúmenar minnkuðu muninn úr vítaspyrnu í seinni hálfleik og stressið var nokkuð undir lokin, en við náðum að sigla sigrinum heim.

Ísland mætir Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti á EM í næsta mánuði.

Það voru allir okkar sterkustu leikmenn heilir gegn Rúmeníu, gamla bandið kom saman og vann leikinn. Ef kjarninn úr liðinu sem hefur farið á tvö stórmót spilar saman, þá eru fá lið sem geta stöðvað okkur.

„Þegar þetta lið, eða kjarninn af því spilar saman, rútínaðasta landslið í heiminum, hvað þá á heimavelli gegn liði sem er ekki betra en Rúmenía - Rúmenía er fínasta landslið en ef við erum ekki að spila við eitt af þessum risalandsliðum, þá trúi ég því aldrei frekar en strákarnir okkar að þeir séu að fara að tapa," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum.

„Það þurfti 58 þúsund endursýningar til að gefa þeim eitthvað víti sem þeir skoruðu úr, annars gerðist ekki neitt. Hannes var sallarólegur í markinu, þeir áttu engin færi af einhverju viti, þeir áttu ekki séns í íslensku vélina hvernig hún mallar og siglir frá hægri til vinstri í rútínunni sinni."

„Það voru allir að spila, það var enginn farþegi í þessu liði. Arnór Ingvi sem hefur verið gagnrýndur var virkilega flottur í þessum leik. Það eru margir búnir að hafa áhyggjur af fyrirliðanum, Aroni Einari, af því að hann er að spila í mjög furðulegri fótboltadeild sem er ekki á hæsta tempóinu. Hann mætti eins og hann væri nýmættur frá sólarlöndum, geggjaður á því. Þeir áttu ekki séns í hann."

„Kári og Raggi flottir, GullI Victor með geggjaðan leik í hægri bakverðinum, það steig enginn feilspor - það vissu allir hvað þeir ættu að gera."

„Þetta kalíber af fótboltaliðum getur ekki unnið íslenska landsliðið ef það spilar eins og við gerðum gegn Rúmeníu. Þú þarft að heita Belgía, Frakkland, Brasilía eða England eða eitthvað, til að maður fari í alvöru að skjálfa í hnjánum. Það er rútínan sem er komin í þetta lið," sagði Tómas.

„Ekki England," sagði Elvar Geir Magnússon léttur.

Það er vonandi að það verði allir heilir og við spilum svipaðan leik gegn Ungverjalandi í næsta mánuði.

Ísland mætir á morgun Danmörku í Þjóðadeildinni. Gera má ráð fyrir því að það verði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu fyrir þann leik.
Útvarpsþátturinn - Gamla bandið, Arnar Grétars og leikmannakönnun
Athugasemdir
banner
banner
banner