sun 10. október 2021 14:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Mega allir vita að það er ekki besta tilfinning í heimi"
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óhætt að tala um skyldusigur þegar Ísland mætir Liechtenstein á Laugardalsvelli á morgun.

Jafnvel þó að Ísland sé með mjög ungt lið og margir að stíga sín fyrstu skref í liðinu, þá má nú alveg tala um að þetta sé leikur sem liðið á að vinna. Það má samt ekki vanmeta andstæðinginn.

„Við nálgumst leikinn með mikilli virðingu fyrir andstæðingnum, eins og við gerum alltaf," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi.

„Við vitum að undir eðlilegum kringumstæðum verðum við meira með boltann. Mjög líklega munum við stjórna leiknum á morgun. Við viljum stjórna leiknum."

Arnar þekkir að tapa á móti Liechtenstein. „Við þjálfararnir vitum hvað getur gerst þegar menn vanmeta andstæðinginn. Ég var sjálfur í liði sem tapaði á móti Liechtenstein. Það mega allir vita að það er ekki besta tilfinning í heimi. Virðing er alltaf númer eitt. Við þurfum að nálgast leikinn þannig að við stjórnum honum, við viljum spila á háu tempói og við viljum vinna."

Versta tap sögunnar
Leikurinn á morgun verður níunda viðureign Íslands og Liechtensteins á fótboltavellinum. Fimm sinnum hefur Ísland fagnað sigri, tvisvar hafa liðin gert jafntefli og Liechtenstein hefur unnið einu sinni.

Síðasti leikur liðanna var í mars, í Liechtenstein, og þá vann Ísland 4-1 sigur.

Ísland tapaði 3-0 á útivelli gegn Liechtenstein í október 2007, undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar, í undankeppni EM. Oft er talað um leikinn sem þann versta í sögu íslenska landsliðsins.

„Við vorum niðurlægðir og erum hrikalega daprir yfir þessu. Þetta er með ólíkindum," sagði Eyjólfur í viðtali við Sýn eftir leikinn umrædda.

Arnar Þór og Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfarar Íslands, spiluðu þennan leik sem fram fór á Rheinpark Stadion í Vaduz. Þetta reyndist síðasti landsleikur Arnars sem leikmaður.
Athugasemdir
banner
banner
banner