Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 10. nóvember 2017 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Forsetinn kennir nornum um slæmt gengi Benevento
Mynd: Getty Images
Oreste Vigorito, forseti Benevento, segist hafa trú á því að félagið haldi sér í efstu deild ítalska boltans þrátt fyrir skelfilega byrjun á tímabilinu.

Félagið er stigalaust á botninum eftir tólf umferðir, en átti góðan leik gegn Juventus í síðustu umferð sem tapaðist aðeins 2-1.

„Við erum búnir að vera að gera góða hluti í leikjum okkar en það skilar sér ekki í stigum," sagði Vigorito við Gazzetta dello Sport.

„Þetta er nornunum að kenna, það vita allir að Benevento er nornabær, þetta eru álög. Ég er ekki að grínast, ég er hjátrúarfullur."

Vigorito segist vera stoltur af hvernig Benevento spilaði gegn Juventus og er viss um að félagið haldi sér uppi þrátt fyrir álögin.

„Eitt er víst, við munum halda okkur uppi í efstu deild, vegna þess að þetta er félag sem gefst aldrei upp.

„Það var hálfgerður sigur að fylgjast með strákunum okkar sækja stíft á margfalda Ítalíumeistara Juventus. Vonandi fáum við alvöru sigur í næsta leik, gegn Sassuolo."


Benevento er þekktur sem nornabær á Ítalíu og ef merki félagsins er skoðað sést þar norn fljúgandi um á kúst. Borgarbúar skildu eftir kústa eða salt fyrir utan hurðirnar sínar á næturna af ótta við nornirnar, sem koma aðeins út í skjóli nætur. Norn þarf að telja hvert einasta strá á kústinum og hvert einasta saltkorn áður en hún kemst óboðin inn.

Bærinn hét upprunalega Maleventum, en Rómverjarnir breyttu því í Beneventum 268 eftir krist. Male þýðir slæmt, eða vont, á ítölsku og latínu. Bene er jákvætt og gott.
Athugasemdir
banner
banner