Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 10. nóvember 2017 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Njósnarinn sem fór í fýluferð á Laugardalsvöll
Icelandair
Tommy Møller Nielsen
Tommy Møller Nielsen
Mynd: Getty Images
Nielsen ræðir við Martin Jol.
Nielsen ræðir við Martin Jol.
Mynd: Getty Images
Nielsen missti af leik Íslands og Tékklands.
Nielsen missti af leik Íslands og Tékklands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frétt Fótbolta.net um njósnara Manchester United í gær vakti heimsathygli

Í fréttinni er sagt frá njósnara sem enska stórliðið Manchester United sendi á vináttulandsleik Íslands og Tékklands í fyrrakvöld. Hann var hinsvegar svo seinheppinn að mæta á Laugardalsvöll þegar leikurinn fór fram í Katar.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er njósnarinn sem um ræðir líklega Daninn Tommy Møller Nielsen.

Ekki er vitað hvaða leikmenn Nielsen var að fara að skoða í leik Íslands og Tékklands, en Nielsen hefur áður sagt að starf njósnara snúist ekki bara um að finna næsta Messi eða Ronaldo.

„Ég heyri oft frá fólki: 'hvað ert þú að gera hérna? Það er enginn nægilega góður fyrir Manchester United hérna'. Að mínu mati snýst þetta um hundsa ekki neitt. Starf njósnara snýst ekki bara um að finna leikmenn, heldur líka um að útiloka leikmenn," sagði Nielsen í samtali við TV2 í Danmörku fyrr á þessu ári.

Jose Mourinho, stjóri Manchester United, réði hinn 56 ára gamla Nielsen til starfa síðasta sumar. En hver er maðurinn?

Stoppar aldrei lengi
Nielsen er fyrrum leikmaður og þjálfari. Hann er sonur Richard Møller Nielsen, sem stýrði Dönum til sigurs á Evrópumótinu 1992.

Á leikmannaferli sínum spilaði hann með Odense Boldklub, Kjøbenhavns Boldklub og Boldklubben 1909. Hann hóf þjálfaraferil sinn í Færeyjum með MB Miðvágur árið 1992. Nokkru síðar, árið 1994, tók hann við Boldklubben 1909 áður en hann gerðist aðstoðarmaður hjá OB (Odense Boldklub).

Hann tók aftur við Boldklubben 1909 árið 1996, en stoppaði stutt þar. Hann fór til Skotlands og fór í þjálfaralið Rangers 1997. Hann var í þjálfaraliði Rangers til 2000 þegar hann gerðist aðstoðarmaður Ebbe Skovdahl hjá Aberdeen.

Nielsen á langan þjálfaraferil, en hann er ekki mikið fyrir að stoppa lengi á hverjum stað eins og sést hér að ofan.

Hann lét af störfum hjá Aberdeen 2001 og viti menn, hann tók aftur við Boldklubben 1909, í þriðja sinn, árið 2003 og var í starfi þar til 2006. Þá fór hann til Viborg og gerðist aðstoðarþjálfari og síðar þjálfari aðalliðsins í stutta stund til bráðabirgða.

Hann hætti hjá Viborg 2007 og fór til Ísrael ári síðar þar sem hann tók við starfi íþróttastjóra hjá Maccabi Netanya. Hann sneri aftur til Danmerkur 2010 og tók við sem þjálfari HB Køge ári síðar eftir að hafa starfað í unglingaliði félagsins. Hann var rekinn sem aðalþjálfari félagsins árið 2012 eftir slakt gengi.

Hann var aðstoðarþjálfari FC Vestsjælland og síðar njósnari, en nú er hann kominn til Manchester United.

Nú er bara spurning hversu lengi hann mun stoppa hjá Manchester United, en ef hægt er að miða við feril hans hingað til verður hann ekki lengi í starfi hjá rauðu djöflunum.

Sjá einnig:
Klúður hjá Man Utd - Sendur á Laugardalsvöll í gær
Athugasemdir
banner
banner
banner