fös 10. nóvember 2017 11:00
Ívan Guðjón Baldursson
Norður-Írar bálreiðir vegna vítaspyrnudómsins
Sjáðu atvikið hér að neðan.
Sjáðu atvikið hér að neðan.
Mynd: Getty Images
Jonny Evans er skiljanlega ósáttur með vítaspyrnudóminn sem Svisslendingar fengu gegn Norður-Írum í umspilsleik fyrir HM í gærkvöldi.

Corry Evans, bróðir Jonny, fékk dæmda vítaspyrnu á sig fyrir að handleika knöttinn innan eigin vítateigs. Boltinn fór rétt fyrir neðan öxlina og ekki er hægt að segja að höndin hafi verið í óeðlilegri stöðu.

Ricardo Rodriguez skoraði úr spyrnunni og tryggði Sviss dýrmætan 1-0 útisigur.

„Þetta er verri ákvörðun heldur en þegar markið hans Thierry Henry fékk að standa í umspilsleik Frakka og Íra," sagði Jonny Evans.

„Dómarinn dæmdi á eitthvað sem gerðist aldrei, sem hann sá ekki, sem hann ímyndaði sér. Hann heldur því fram að hann hafi séð eitthvað gerast, sem gerðist ekki. Það er verra heldur en þegar dómari missir af einhverju atviki."

„Ég er ekki búinn að spjalla við bróður minn um þetta, en það er í raun ekkert hægt að segja. Hann gerði allt rétt, þetta var aldrei vítaspyrna."


Michael O’Neill, þjálfari Norður-Íra, segir að ákvörðun rúmenska dómarans Ovidiu Hategan að dæma víti sé sú versta sem hann hafi séð í alþjóðlegum leik.

„Þetta getur ekki undir nokkrum kringumstæðum túlkast sem vítaspyrna. Ég er hlynntur því að myndbandsupptökur séu notaðar í leikjum sem þessu, myndbandstæknin hefði komið í veg fyrir þessu dýru mistök," segir O'Neill.

Sviss og Norður-Írland mætast í seinni leiknum í komandi viku. Sigurvegarinn fer á HM í Rússlandi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner