Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 10. desember 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Gylfi hæstánægður með Silva og nýju leikmennina
Gylfi fagnar marki.  Nær hann að skora í kvöld?
Gylfi fagnar marki. Nær hann að skora í kvöld?
Mynd: Getty Images
„Ég held að þú getir spurt hvaða leikmann sem er, allir eru að njóta þess að spila undir stjórn nýja stjórans," sagði Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali við heimasíðu Everton aðspurður út í stjóra liðsins Marco Silva.

Silva tók við Everton í sumar og tímabilið hefur rúllað vel af stað hjá liðinu.

„Hann vill að við spilum sóknarbolta, leggjum hart að okkur án bolta og pressum. Það er góður skilningur á milli leikmanna."

Silva fékk Richarlison, Bernard, Kurt Zouma, Yerry Mina, Lucas Digne og Andre Gomes til Everton í sumar og Gylfi er ánægður með innkomuna hjá þeim.

„Nýju leikmennirnir hafa verið stórkostlegir. Þeir hafa hjálpað okkur að skora mikið af mörgum og skapað mikið fram á við með hraða," sagði Gylfi.

„Allir leikmennirnir sem komu hafa passað mjög vel inn. ekki bara sóknarmennirnir heldur miðverðirnir og Lucas líka. Þeir henta leikstílnum sem stjórinn vill að við spilum."

Everton mætir Watford á Goodison Park í kvöld klukkan 20:00 en með sigri getur liðið aftur komist upp fyrir Manchester United á betri markatölu.

„Þetta verður erfiður leikur. Þeir eru með góðan hóp, við erum einbeittir og viljum komast aftur á sigurbraut. Við höfum verið ánægðir með það hvernig við höfum spilað síðustu mánuði. Ef við getum komist í gegnum desember og janúar á góðan hátt þá verðum við vonandi ofarlega í töflunni," sagði Gylfi.
Athugasemdir
banner
banner
banner