Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 10. desember 2018 10:11
Magnús Már Einarsson
Ingó Sig hættur í fótbolta - „Fortíðin virðist vinna gegn mér"
Ingólfur í leik með KH síðastliðið sumar.
Ingólfur í leik með KH síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur í leik með uppeldisfélagi sínu Val árið 2011.
Ingólfur í leik með uppeldisfélagi sínu Val árið 2011.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur Sigurðsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en frá þessu greinir hann á Twitter. Ingólfur var á sínum tíma einn efnilegasti leikmaður landsins en hann gekk ungur í raðir Heerenveen.

Hinn 25 ára gamli Ingólfur ólst upp hjá Val en hann hefur einnig leikið með KR, Víkingi Ólafsvík, Þrótti R, KV, Fram og Gróttu á ferlinum. Síðastliðið sumar spilaði hann síðan með KH í 3. deildinni.

Ingólfur hefur undanfarin ár talað opinskátt um andleg vandamál í fótboltanum en slík vandamál settu stórt strik í reikningin á fótboltaferli hans.

Í haust hefur Ingólfur æft með ÍBV en hann segir í færslu á Twitter í dag að hann hafi nú ákveðið að hætta í fótbolta eftir að hafa dreymt um að komast að hjá liði í Pepsi-deildinni. Hann segir fortíðina vinna á móti sér.

„Undanfarið eina og hálfa árið hef ég lagt allt í sölurnar til að uppfylla draum minn um að spila fótbolta í efstu deild á Íslandi. Þann draum hef ég borið í brjósti mér frá því ég byrjaði að eltast við bolta hjá Val sem smápjakkur," sagði Ingólfur á Twitter í dag.

„Ég vakna upp á hverjum degi með þennan draum ljóslifandi í huga mér. Ég hef aldrei leyft mér að gefast upp, sama hversu fjarlægt markmiðið virðist vera. Hver einasti dagur er nýttur til þess að bæta sig, innan sem utan vallar, allt til þess að vera eins vel undirbúinn og kostur er, ef kallið skyldi koma."

„Ég hef beðið um tækifæri til að sýna mig og sanna, en alls staðar hef ég komið að lokuðum dyrum. Ég á mér vissulega mkla sögu sem ég er orðinn þreyttur á að endurtaka. Fortíðin virðist vinna gegn mér, frekar en með mér. Ég hef því ákveðið að hætta að spila fótbolta."

„Aldrei nokkurn tímann mun ég biðja um vorkunn - en ég vona innilega að næsti leikmaður, sem fær það verðuga verkefni að vera ekki eins og allir hinir, fái tækifæri og lið sjái það sem heillandi áskorun að ná því besta fram í honum."


Athugasemdir
banner
banner
banner