banner
   fös 11. janúar 2019 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lampard stöðvaði æfingu meðan lögreglan handsamaði njósnara
Mynd: Getty Images
Það var ansi skrautlegt atvik sem átti sér stað á æfingu Derby County í gær þar sem liðið var að æfa sig fyrir leikinn mikilvæga gegn Leeds United sem er á dagskrá annað kvöld.

Leeds er á toppi Championship deildarinnar þrátt fyrir að vera búið að tapa tveimur leikjum í röð á meðan Derby er í umspilssæti, átta stigum frá toppnum.

Ljóst er að mikið er í húfi í leiknum, sérstaklega fyrir Leeds þar sem leikmenn virðast vera byrjaðir að missa sjálfstraustið. Liðið tapaði fyrst tveimur deildarleikjum í röð og datt svo úr bikarnum gegn QPR síðasta sunnudag.

Félagið virðist því hafa tekið ákvörðun um að senda njósnara til að fylgjast með æfingum Derby fyrir leikinn, því Frank Lampard neyddist til að stöðva æfingu liðsins í gær eftir að starfsmaður félagsins kom auga á grunsamlegan mann.

Hringt var á lögregluna sem fann manninn í snatri þar sem hann hélt á töng og kíki.

„Lögregluþjónar eru komnir aftur eftir heimsókn á æfingasvæði Derby County eftir að grunsamlegur karlmaður sást við girðinguna," skrifaði lögreglan í Derby á Twitter.

„Maðurinn fannst eftir stutta leit. Við höldum liðinu öruggu svo það geti skilað okkur sigri gegn #LUFC! #SpyingIsCheating (að njósna er að svindla)"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner