Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 11. janúar 2022 14:53
Elvar Geir Magnússon
Afríkukeppnin: Aðeins einn leikur af sjö boðið upp á meira en eitt mark
Ríkjandi meistarar Alsír gerðu markalaust jafntefli
Riyad Mahrez, leikmaður Alsír.
Riyad Mahrez, leikmaður Alsír.
Mynd: EPA
Kwame Quee leikur fyrir Síerra Leóne.
Kwame Quee leikur fyrir Síerra Leóne.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alsír 0 - 0 Síerra Leóne

Óhætt er að segja að Afríkukeppnin fari mjög rólega af stað. Síðan opnunarleikurinn fór fram hafa verið spilaðir sex leikir í röð án þess að skorað hefur verið meira en eitt mark í hverjum leik.

Nú var að ljúka leik ríkjandi Afríkumeistara Alsír og Síerra Leóne, ekkert mark var skorað í leiknum.

Kwame Quee, sem hefur spilað á Íslandi frá 2017 og varð meistari með Víkingi í fyrra, var í byrjunarliði Síerra Leóne og lék allan leikinn.

Síerra Leóne kom boltanum í netið í upphafi seinni hálfleiks en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Hinumegin fékk Yacine Brahimi dauðafæri strax á eftir en Mohamed Kamara náði að verja með naumindum.

Annað dauðafæri hjá Alsír fór forgörðum á 67. mínútu þegar Sofiane Bendebka brást bogalistin og skaut framhjá þegar hann var nýkominn inn sem varamaður.

Alsír fékk talsvert betri færi á lokakafla leiksins en hvorugu liðinu tókst að finna leiðina í mark andstæðingsins. Síerra Leóne fagnaði þessum úrslitum en Alsíringar súrir og svekktir.

Þetta var leikur í E-riðli keppninnar en í sama riðli mætast Miðbaugs-Gínea og Fílabeinsströndin á morgun.

Í dag eru tveir leikir í D-riðli. Nígería og Egyptaland mætast klukkan 16 og Súdan leikur svo gegn Gínea-Bissá í áhugaverðum leik klukkan 19.
Athugasemdir
banner
banner