Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 11. janúar 2023 15:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Styttist í Hilmar Árna - „Þá vonandi tekur maður þessu ekki sem sjálfsögðum hlut"
Styttist í að Hilmar Árni snúi aftur.
Styttist í að Hilmar Árni snúi aftur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klár með iPadinn síðasta sumar.
Klár með iPadinn síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar maður fer að nálgast þetta aftur þá vonandi tekur maður þessu ekki sem sjálfsögðum hlut
Þegar maður fer að nálgast þetta aftur þá vonandi tekur maður þessu ekki sem sjálfsögðum hlut
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Árni Halldórsson sleit krossband í leik með Stjörnunni fyrir tæpu ári síðan. Hann missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðslanna en nú styttist í að hann snúi aftur á völlinn. Hilmar, sem er þrítugur miðjumaður, ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Staðan á mér er bara góð, það eru rúmir tíu mánuðir frá aðgerð og mér líður vel. Ég er kominn inn á allt í æfingunum og bíð bara eftir fyrsta leik. Ég er ekki alveg orðinn klár í að spila en vonandi styttist," sagði Hilmar Árni.

Er einhver dagsetning sem horft er í varðandi fyrsta leik? „Nei, ekkert þannig. Vonandi bara sem fyrst, ég er að bíða eftir græna ljósinu."

„Það hefur ekkert bakslag orðið til að tala um. Endurhæfingarferlið hefur gengið mjög vel og vonandi heldur það áfram."


Hvernig var að vera utan vallar og fylgjast með af hliðarlínunni?

„Það var öðruvísi, alveg krefjandi eins og allir vita sem hafa þurft að ganga í gegnum svona meiðsli. En þetta er bara hluti af þessu og fær mann til þess að horfa aðeins öðruvísi augum á hlutina. Þegar maður fer að nálgast þetta aftur þá vonandi tekur maður þessu ekki sem sjálfsögðum hlut."

Hilmar sást með iPadinn á lofti á varamannabekk Stjörnunnar í fyrra, var í því að greina leikinn á meðan hann var í gangi.

„Ég fílaði mig bara þokkalega í því. Það var gaman að geta verið kringum þetta og í kringum strákana. Það var skemmtilegt að fá innsýn inn í hvernig hlutirnir eru á hliðarlínunni. Það er margt sem hægt er að læra þar."

Varstu í einhverju hlutverki líka á æfingasvæðinu?

„Nei nei, og í sjálfu sér var þetta ekkert risastórt hlutverk. Það sem ég var að gera er það sem allir leikmennirnir eru hvattir til að gera - ef einhver sér eitthvað sem má betur fara er hann hvattur til að láta vita. Ég held þetta sé liður í því að búa til þannig lið, og þannig andrúmsloft, að við erum saman að leita að lausnum. Ég var ekkert mikilvægari en hver annar í því ferli."

Er þetta eitthvað sem þú gætir séð þig gera meira af í framtíðinni, leikgreiningar og slíkt?

„Já - jafnvel þjálfun. Það er eitthvað sem ég er að huga að núna, en ekkert sem er fastmótað."

Hvernig líst þér á styrkingarnar á leikmannahópi Stjörnunnar það sem af er vetri?

„Nokkuð vel, ég held að við séum á fínni vegferð í að styrkja þetta lið þar sem þarf að styrkja. Það er komin góð samkeppni og við erum með þokkalega stóran hóp með öllum ungu strákunum. Maður er líka spenntur að sjá hver af þeim tekur næsta skrefið. Þetta er spennandi hópur."

Er þig farið að klæja að komast aftur inn á völlinn og spila fótbolta?

„Ég get ekki neitað því, það er farið að klæja en það er bara þolinmæði. Ég er vonandi á síðustu metrunum núna. Vonandi fer þetta að koma," sagði Hilmar að lokum.

Sjá einnig:
Hilmar Árni með lifandi leikgreiningar - „Vildum nýta þennan demant"
Athugasemdir
banner
banner
banner