mán 11. febrúar 2019 17:16
Ívan Guðjón Baldursson
Aaron Ramsey verður launahæsti Breti sögunnar
Mynd: Getty Images
Aaron Ramsey er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Ítalíumeistara Juventus og mun hann fá 400 þúsund pund í vikulaun, samkvæmt David Ornstein fréttamanni BBC.

Hann verður því launahæsti breski leikmaður sögunnar og fær hærri grunnlaun heldur en menn á borð við Gareth Bale, Raheem Sterling og Harry Kane.

Ramsey er 28 ára miðjumaður sem hefur leikið fyrir Arsenal síðustu ellefu ár. Hann var næstum búinn að skrifa undir nýjan samning í fyrra en félagið hætti við og lækkaði samningstilboðið. Hann fer því frítt næsta sumar enda rennur samningur hans við Arsenal út í lok júní.

Það verður engin smá barátta um byrjunarliðssæti hjá Juve á næsta tímabili þar sem Miralem Pjanic, Blaise Matuidi, Emre Can, Sami Khedira og Rodrigo Bentancur eru þegar á mála hjá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner