Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 11. mars 2020 12:00
Magnús Már Einarsson
Meistaraspáin - Kemst Liverpool áfram?
Liverpool fær Atletico Madrid í heimsókn í kvöld.
Liverpool fær Atletico Madrid í heimsókn í kvöld.
Mynd: Getty Images
Fer Dortmund áfram?
Fer Dortmund áfram?
Mynd: Getty Images
Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, og Óli Stefán Flóventsson, þjálfari karlaliðs KA, mæta fréttamönnum Fótbolta.net í léttum leik í tengslum við útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Spáð er um úrslit allra leikja í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Fyrir hárréttar lokatölur fást 3 stig en 1 stig ef rétt tákn er á leiknum.

Atletico Madrid fer á Anfield með 1-0 forskot fyrir síðari leikinn gegn Liverpool í 16-liða úrslitunum í kvöld. Þá leiðr Dortmund 2-1 fyrir heimsókn sína til PSG.

Kristján Guðmundsson

Liverpool 2 - 1 Atletico Madrid (Samanlagt 2-2, Atletico áfram)
Þetta verður naglbítur. Liverpool hafa verið óstöðugir eftir vetrarfrí af einhverjum ástæðum en það var nú samt óþarfi að tapa fyrri leiknum í Madrid. Fyrir Atletico að fá ekki á sig mark þar var mikilvægt og líklegast er að þeir nái útivallarmarki á Anfield á meðan Liverpool eru að pressa fram forystu í leiknum sem gerir út um þetta einvígi.

PSG 3 - 1 Dortmund (Samanlagt 4-3)
Vel gert hjá Dortmund að vinna fyrri leikinn en útivallarmark PSG í þeim leik mun hafa mikil áhrif á þennan seinni leik liðanna. Nú mun sóknarþungi PSG skila sér í fleiri mörkum sem þvingar Dortmund fram á völlinn. Frammistaða Dortmund á útivöllum alltof slakt undanfarið til hægt sé að búast við sigri þeirra í París. Það verður mikið skorað, mikil skemmtun og PSG kemst í gegnum 16 liða úrslit, loksins.

Óli Stefán Flóventsson

Liverpool 2 - 0 Atletico Madrid (Samanlagt 2-1)
Hversu oft hefur maður séð Liverpool gera sér hlutina erfiða á útivelli í þessari keppni og laga þá svo um munar á heimavelli. Ég held að það verði engin breyting á og þeir snúa þessu 1-0 tapi við og vinna 2-0. Anfield Road er bara svo rosalegt vígi að Liverpool er alltaf að fara að vinna þennan leik. Er ekki gott bet að segja að Mane og Salah skori mörkin.

PSG 1 - 2 Dortmund (Samanlagt 2-4)
Ég tippaði á móti mínu liði í Dortmund síðast og fékk það svo sannarlega í bakið. Mig langar alveg rosalega að segja bara að þeir klári þetta en þegar maður horfir í andstæðinginn sem er PSG á heimavelli er það erfitt. Sú staðreynd að Mbappe er tæpur og það að Verratti í banni breytir leikmyndinni hins vegar aðeins. Ég læt hjartað ráða frekar en skynsemina og segi 1-2 Dortmund. Markavélarnar Haaland og Cavani sjá um mörkin, Haaland tvö, Cavani eitt.

Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson

Liverpool 4 - 1 Atletico Madrid (Samanlagt 4-2)
Atletico tókst að halda aftur að Liverpool í fyrri leiknum, en það mun reynast heldur betur erfiðara í kvöld. Stemningin verður rosaleg á Anfield og það mun hjálpa Liverpool mjög.

PSG 2 - 3 Dortmund (Samanlagt 3-5)
Hef á tilfinningunni að PSG valdi enn og aftur vonbrigðum í Meistaradeildinni. Mbappe er tæpur og það gæti haft áhrif. Þetta verður markaleikur sem Dortmund mun að lokum vinna með Sancho og Haaland í lykilhlutverki.

Staðan í heildarkeppninni:
Fótbolti.net - 7 stig
Kristján Guðmundsson - 4 stig
Óli Stefán Flóventsson - 4 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner