fim 11. apríl 2019 13:40
Elvar Geir Magnússon
Eiður um Chelsea: Ýmsar skýringar á vandamálunum
Eiður spjallar við Tómas Þór Þórðarson og Loga Bergmann.
Eiður spjallar við Tómas Þór Þórðarson og Loga Bergmann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hefur verið mjög sveiflukennt tímabil hjá liðinu. Það er erfitt að leggja fingur á hvar vandamálið er. Þegar maður rýnir í þetta þá er mikil óreiða í kringum félagið," segir Eiður Smári Guðjohnsen um stöðu mála hjá Chelsea, hans gamla félagi.

Það hefur mikil ólga einkennt Chelsea á þessu tímabili og eigandinn, Rússinn Roman Abramovich, hefur ekki getað verið á staðnum þar sem hann fékk ekki landvistarleyfi á Bretlandi.

„Roman Abramovich er með pólitískt dæmi í kringum sig og ekki alveg víst hvort hann muni eiga félagið áfram. Svo eru efasemdir um þjálfarann og hvaða leikmenn verða áfram. Þegar allt er tekið saman þá ertu kominn með smá vandamál."

„Það virðist vera rótleysi og það sýnir sig í úrslitunum. Chelsea hefur samt sýnt að þegar liðið spilar sinn fyrsta leik. Þeir hafa ekki náð að fylgja því nógu vel eftir og verið of misjafnir. Bæði hvað gæði varðar og að ná í úrslit," segir Eiður sem varð Englandsmeistari með Chelsea 2005 og 2006.

Hann fer fögrum orðum um eigandann.

„Abramovich hefur sýnt síðan hann eignaðist Chelsea að hann hefur mikinn metnað og ástríðu gagnvart félaginu. Hann er að glíma við pólitísk mál á Englandi sem koma ekki endilega fótbolta við. Það verður bara að koma í ljós hver þróunin verður."

„Það voru efasemdir um það þegar Abramovich eignaðist félagið fyrst hvort það yrði bara eitthvað leikfang. En hann hefur lyft félaginu frá því að vera gott félag í að vera frábært félag þegar þú horfir út frá öllum hliðum," segir Eiður Smári.

Í morgun var opinberað að Eiður verður í teymi Símans á næsta tímabili en enski boltinn færist þangað. Viðtalið við hann má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að neðan:
Eiður Smári: Lífið komið núna í röð og reglu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner