Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 11. maí 2013 09:59
Fótbolti.net
Umfjöllun: KV lagði HK í hörkuleik
Einar Bjarni Ómarsson skoraði fyrir KV.
Einar Bjarni Ómarsson skoraði fyrir KV.
Mynd: KV
Guðmundur Atli skoraði fyrir HK.
Guðmundur Atli skoraði fyrir HK.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Davíð Birgisson skoraði annað mark KV.
Davíð Birgisson skoraði annað mark KV.
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Brynjar Orri var á skotskónum.
Brynjar Orri var á skotskónum.
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
KV 4-2 HK
0-1 Guðmundur Atli Steinþórsson ('8 )
1-1 Einar Bjarni Ómarsson ('19, víti )
1-2 Ásgeir Marteinsson ('29 )
2-2 Davíð Birgisson ('39 )
3-2 Brynjar Orri Bjarnason ('68 )
4-2 Esra Þór Árnason ('85 )

KV og HK mættust í stórleik 1. umferðar 2. deildar, en liðunum er spáð 1. og 3. sæti í deildinni í sumar. Fjöldi áhorfenda lagði leið sína í Vesturbænum og sáu heimamenn halda boltanum nokkuð meira fyrstu mínúturnar en það voru þó gestirnir úr Kópavogi sem skoruðu fyrsta mark leiksins.

Eftir tíðindalitlar 10 mínútur misstu Vesturbæingar boltann klaufalega á miðjunni og HK menn geystust hratt fram í góða sókn sem Guðmundur Atli Steinþórsson kláraði með góði skoti fram hjá Atla Jónassyni í markinu. Guðmundur var aftur á ferð nokkrum mínútum síðar þegar skot hans úr þröngu færi var varið í horn.

Það voru þó heimamenn sem náðu næst að koma boltanum í netið. Á 20. mínútu var brotið á Brynjari Orra Bjarnasyni rétt við vítateigsjaðarinn og Valgeir Valgeirsson dómari benti á vítapunktinn. Fyrirliði KV, Einar Bjarni Ómarsson, tók vítið, sendi Beiti Ólafsson í rangt horn og jafnaði metinn.

HK náðu smám saman betri völdum á leiknum og eftir hálftíma leik kom Ásgeir Marteinsson þeim yfir á nýjan leik með góðu marki. Boltinn barst til hans inni í vítateig KV og hann hamraði boltann fast undir Atla í markinu.

Litlu munaði að Guðmundur Atli kæmi HK í 3-1 þegar hann náði að slæma löppinni í boltann eftir fyrirgjöf og kom Atla mjög á óvart í markinu. Atli náði þó að hlaupa til baka í átt að marki og greip boltann á marklínunni.

Skömmu fyrir hálfleik jöfnuðu heimamenn þó eftir gullfallega sókn. Eftir frábært þríhyrningaspil manna á milli upp völlinn fékk Einar Már Þórisson boltann fyrir utan vítateig HK. Hann þræddi hann fram hjá varnarlínu gestanna til Davíðs Birgissonar sem vippaði boltanum fram hjá Beiti í markinu. Frábært mark og minnti á spil KV í 2. deildinni í fyrra.

2-2 var staðan í hálfleik og nokkuð jafnræði með liðunum þó gestirnir úr Kópavogi væru nokkuð ferskari og hættulegri.

Síðari hálfleikur var mun fjörugri og spilamennskan betri hjá báðum liðum. Strax í fyrstu sókn skaut Guðmundur Atli í slá úr aukaspyrnu og átti góðan sprett stuttu síðar en brást bogalistin við markið. Einar Már Þórisson var sömuleiðis nálægt því að koma boltanum í markið fyrir KV en skotið hans geigaði.

Eftir klukkustundar leik komust HK menn nálægt því að skora þegar skot þeirra voru tvívegis varin í sömu sókn en skömmu síðar komust heimamenn yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar Davíð Birgisson skaust í gegnum vörn HK og lagði boltann fyrir á Brynjar Orra Bjarnason sem kórónaði mjög góða frammistöðu sína í sókninni og skoraði í opið netið.

Síðasta hálftímann gekk mikið á þar sem liðin fengu bæði færi. Sölvi Víðisson, sem kom mjög sterkur inn á í liði HK í síðari hálfleik, olli talsverðum usla og skallaði rétt yfir eftir góða fyrirgjöf.

KV menn innsigluðu þó sigurinn 5 mínútum fyrir leikslok þegar varnarmaðurinn Esra Þór Árnason dúkkaði allt í einu upp í skyndisókn heimamanna. Hann var rétt á undan Beiti markverði í boltann, potaði honum inn í teiginn og renndi boltanum í autt markið við mikinn fögnuð heimamanna.

Heimamenn í KV fögnuðu innilega góðum 4-2 sigri á mjög sterku liði HK sem höfðu eflaust hugsað sér betra upphaf á tímabilinu.

Áhorfendur: 250
Maður leiksins: Davíð Steinn Sigurðarson
Athugasemdir
banner
banner
banner