banner
   mið 11. maí 2022 14:30
Fótbolti.net
Skólakrakkar velja besta lið ensku deildarinnar
Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Í Vestmannaeyjum er val á unglingastigi sem heitir einfaldlega Enski boltinn. Kennari námskeiðsins er Daníel Geir Moritz, formaður knattspyrnuráðs ÍBV, en hann vakti athygli á liði sem nemendur hans völdu á dögunum.

„Það eru 17 krakkar í námskeiðinu og af báðum kynjum. Ég skipti þeim upp í dúó sem áttu að velja sitt draumalið frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar. Við lögðum síðan saman hverjir voru oftast valdir í hvaða stöðu og verð ég að segja að niðurstaðan er geggjuð,“ segir Daníel.

Þegar lið eru valin er oft þráttað um hvort einhver sé betri en hinn og var það einnig í þessu tilfelli.

„Nei, þau voru ekki sammála. Cech fékk samt nær öll atkvæðin sem og Thierry Henry og Ashley Cole. En þeir Giggs og Beckham þurftu að fara í bráðabana sem og Vieira og Lampard. Stjórinn var Sir Alex Ferguson og fékk hann öll atkvæðin nema frá einum sem valdi Pep Guardiola. Það er bara gaman að þessu og var erfitt að bíta í tunguna á sér þegar þau voru að spyrja mig hvort ætti að velja þennan eða hinn, en mér tókst að hafa engin áhrif á valið."

Að lokum var Daníel svo spurður hvað krakkar læri í valfaginu Enski boltinn.

„Þau læra í raun bara gríðarlega margt. Þetta er landafræði, sagnfræði, félagsfræði, fjármálalæsi, framsögn, enska, tölfræði, upplýsingatækni o.s.frv. o.s.frv. Ég held að margir tengi við mig með að margt sem maður kann kemur úr fótbolta og vildi ég nýta það á skemmtilegan hátt. Kennsla í dag er út frá hæfniviðmiðum og þá er hægt að spyrja sig; hvort ætli unglingi þyki skemmtilegra að kynna fyrir framan hóp, eftir að hafa aflað sér upplýsinga á netinu og þýtt yfir á íslensku og sett upp í glærusýningu, Thierry Henry, Class Of ´92 eða Hillsbrough slysið eða að halda kynningu um Snorra Sturluson, knörr og fley?" segir Daníel Geir Moritz, grunnskólakennari í Vestmannaeyjum.


Athugasemdir
banner
banner
banner