lau 11. júní 2022 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Almeria fær 20 prósent af sölunni á Nunez - Eigandinn að staðfesta kaupin?
Darwin Nunez
Darwin Nunez
Mynd: EPA
Úrúgvæski framherjinn Darwin Nunez er að ganga í raðir Liverpool frá Benfica. Turki Alalshikh, eigandi Almeria á Spáni, svo gott sem staðfestir það á Twitter.

Það kann að hljóma undarlega að eigandi Almeria gæti vitað eitthvað um það að Nunez sé á leið á Anfield en tenglsin eru svo sannarlega til staðar.

Nunez er 22 ára gamall og spilaði með Almeria áður en hann samdi við Benfica fyrir tveimur árum.

Þegar Benfica keypti hann setti Almeria klásúlu í samninginn um að félagið fengi 20 prósent af næstu sölu á Nunez.

Alalshikh gæti því verið kunnugur um stöðu mála enda rúmlega 20 milljónir punda á leið í kassann hjá Almeria.

Portúgalskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Nunez hafi náð samkomulagi við Liverpool um kaup og kjör og þá eru liðin nálægt því að ná saman um kaupverð.

Það ætti því að styttast í tilkynningu frá Liverpool en Nunez mun leysa Sadio Mané af hólmi sem fer að öllum líkindum til Bayern München.


Athugasemdir
banner
banner
banner