Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 11. júlí 2018 14:01
Elvar Geir Magnússon
Laugi: Kveikir vonandi í liðinu að skipt sé um mann í brúnni
Guðlaugur hefur látið af störfum.
Guðlaugur hefur látið af störfum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur ætlar að halda áfram í þjálfun.
Guðlaugur ætlar að halda áfram í þjálfun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Gengi liðsins var ekki eins og vonir stóðu til og stigasöfnunin lítil. Það var truflandi. Ég ákvað á endanum að taka þetta skref og segja upp störfum," segir Guðlaugur Baldursson í sínu fyrsta viðtali eftir að hann lét af störfum sem þjálfari Keflavíkur.

Keflavík er límt á botni Pepsi-deildarinnar, með aðeins þrjú stig. Hafði hann verið að hugsa það lengi að stíga til hliðar?

„Nei svo var ekki. Eftir Stjörnuleikinn fór ég að hugsa að kannski væri betra að einhver annar kæmi að málum og myndi stýra þessum hópi til loka tímabils. Maður er svekktur með að ná ekki fleiri stigum og hafa ekki náð sigurleik. Þá ákvað maður að taka þessa ákvörðun."

Rýrði möguleikana að geta ekki styrkt liðið
Guðlaugur fékk ekki fjármagn til að styrkja Keflavíkurliðið en það er nánast með sama hóp og komst upp úr Inkasso-deildinni í fyrra. Keflavík missti öfluga bakhjarla og það hafði mikil áhrif.

„Það er hárrétt að maður hefði viljað fá styrkingu á einhverjum tímapunkti. Forsendur breyttust hjá félaginu og það réði ekki við það að styrkja hópinn okkar. Því miður. Það rýrði möguleika okkar á að ná góðri stöðu í deildinni," segir Guðlaugur.

Nánast allir eru búnir að dæma Keflavík niður en Guðlaugur vonast til að sú umræða hjálpi liðinu að komast á betra skrið og ná upp betri stigasöfnun.

„Ég vona það. Það kveikir oft í liði að breytt sé um mann í brúnni. Þá gerast stundum hlutir og ég vona svo sannarlega að mínir menn nái fram fyrsta sigurleiknum á föstudaginn (gegn Víkingi). Ef menn taka fyrsta sigurinn fá menn blóðbragð í tennurnar og það gæti hjálpað í bardaganum. Það gæti gefið mönnum trú og von."

Telur hann að þetta slæma gengi í sumar gæti haft vond áhrif á Keflavíkurliðið til framtíðar?

„Það er erfitt að segja. Það verður að koma í ljós þegar talið er upp úr kössunum. Það er erfitt fyrir ungt og óreynt lið að ná ekki sigurleikjum. Það skemmtilegasta í fótbolta er að fagna sigrum og það er alltaf erfitt þegar það tekst ekki. Það hefur áhrif á menn á þessari stundu en vonandi ekki til langs tíma," segir Guðlaugur.

Alveg á hreinu að ég er ekki hættur að þjálfa
Sjálfur segist hann ekki vera hættur í þjálfun.

„Þetta var ákvörðun sem var tekin og ég viðurkenni að hún var erfið. En ég er ekkert hættur að þjálfa, það er alveg á hreinu. Ég tel mig hafa margt fram að færa sem þjálfari."

Gætum við séð hann í annarri stöðu áður en tímabilið er búið?

„Ég efast um það. Öll lið eru mönnuð af góðum þjálfurum og ég vona að þeir haldi áfram að vinna sína vinnu," segir Guðlaugur að lokum.

Eysteinn Hauksson, sem var aðstoðarmaður Guðlaugs, hefur verið ráðinn þjálfari tímabundið og stýrir Keflvíkingum gegn Víkingi á föstudag. Í viðtali við Fótbolta.net í dag sagðist Eysteinn hafa áhuga á því að stýra Keflavík út tímabilið.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner