þri 11. september 2018 18:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bendtner biðst afsökunar á slagsmálum við leigubílstjóra
Leigubílstjórinn kjálkabrotnaði
Nicklas Bendtner.
Nicklas Bendtner.
Mynd: Richard Sagen/Adresseavisen
Bendtner kom sér í vesen.
Bendtner kom sér í vesen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danski sóknarmaðurinn Nicklas Bendtner hefur sent frá sér afsökunarbeiðni eftir að hann var handtekinn í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur, aðfaranótt síðastliðins sunnudags.

Leigubílstjóri vísaði lögreglu á Bendtner, en leigubílstjórinn heldur því fram að Bendtner hafi ráðist á sig. Leigubílstjórinn þurfti að gangast undir aðgerð vegna kjálkabrots.

Samkvæmt heimildum Sky Sports var Bendtner handtekinn en enginn kæra hefur verið lögð fram gegn honum.

Norska félagið Rosenborg, sem Bendtner spilar fyrir, ætlar að skoða málið betur.

„Ég er ótrúlega sorgmæddur að útkoman skyldi verða eins óheppileg og hún varð," sagði Bendtner í yfirlýsingu en hann sagði frá því að hann hefði lent í „óheppilegu og óþægilegu atviki".

„Ég bið alla stuðningsmenn Rosenborg afsökunar. Frá fyrsta leik hefur það verið heiður að spila fyrir dygga stuðningsmenn Rosenborg. Ég bið félagið líka afsökunar, Rosenborg hefur verið meira en gott félag fyrir mig. Þetta hefur verið eins og nýtt heimili og ný fjölskylda, þegar ég þurfti á nýrri byrjun að halda, meira en nokkurn tímann áður."

„Ég bið liðsfélaga mína afsökunar að þetta dragi að athygli á mikilvægum tíma, ég þakka skilninginn sem ég hef þegar fengið. Það fólk sem ég hef deilt búningsklefa með í eitt og hálft ár vita það sem betur fer að ég er ekki og hef aldrei verið mikið í að koma mér í slagsmál. En ég vernda þá sem ég elska, innan sem utan vallar."

Bendtner sagði jafnframt í yfirlýsingunni að hann ætli að passa upp á að eitthvað þessu líkt komi ekki fyrir aftur. Talið er að Bendtner hafi verið með kærustu sinni í leigubílnum.

Bendtner er þrítugur og er frægastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal, þar sem hann hafði fullmikla trú á sjálfum sér og sagðist ætla að vinna Gullknöttinn.

Það gekk ekki upp og yfirgaf hann Arsenal árið 2014 og hefur síðan þá spilað fyrir Sunderland, Birmingham, Juventus, Wolfsburg og Nottingham Forest.

Í dag er hann leikmaður Rosenborg. Hann er kominn með fimm mörk í 18 leikjum í norsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en Rosenborg er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar með tveimur stigum meira en Brann. Matthías Vilhjálmsson spilar einnig fyrir Rosenborg.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner