Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 11. september 2018 17:00
Magnús Már Einarsson
Sveinn Þór: Áhuginn á Dalvík hefur aukist í sumar
Dalvík/Reynir upp í 2. deild - Var spáð falli fyrir mót
Sveinn Þór Steingrímsson (til vinstri).
Sveinn Þór Steingrímsson (til vinstri).
Mynd: Dalvík/Reynir
Úr leik hjá Dalvík/Reyni í sumar.
Úr leik hjá Dalvík/Reyni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Dalvík/Reynir tryggði sér sæti í 2. deild á næsta tímabili með 1-1 jafntefli gegn KH í næstsíðustu umferðinni í 3. deildinni á laugardag.

Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Dalvíkur/Reynis, svaraði nokkrum spurningum um sumarið hjá liðinu.



Ykkur var spáð falli fyrir mót. Er árangurinn í sumar framar væntingum?
Nei hann er það ekki. Spáin kom okkur svo sem ekkert á óvart miðað við gengið síðustu ár en við vissum alltaf að við værum með gott lið í höndunum og ætluðum okkur vera í toppbaráttu.

Hver er lykillinn að þessum góða árangri?
Það eru margir þættir sem koma að því. Hópurinn sem við erum með er gríðarlega flottur. Stemmingin er frábær, fjör á æfingum og menn ná vel saman. Umgjörðin í kringum liðið er líka mjög góð.
Við leggjum mikla áherslu á að fókusera á réttu hlutina og eigin frammistöðu, að menn fylgi leikskipulagi og að allir séu með hlutverkin sín á hreinu. Við unnum mikið með varnarleikinn eins og kannski sést á því hve fá mörk við höfum fengið á okkur.
Einnig höfum við verið að vinna eftir ákveðnum gildum sem við settum okkur fyrir tímabilið og unnið með markmiðasetningu bæði fyrir tímabilið og á tímabilinu sjálfu. Það hefur hjálpað okkur mikið.

Hvernig er leikmannahópurinn byggður upp?
Blanda af heimamönnum og strákum af Eyjafjarðasvæðinu. Svo erum við með tvo Bandaríkjamenn sem hafa smellpassað inn í hópinn.

Reiknar þú með miklum breytingum á leikmannahópnum fyrir næsta sumar?
Það verða alltaf einhverjar breytingar. Við vonumst samt með að halda sem flestum og svo munum við að sjálfsögðu leitast eftir því að styrkja liðið enda komnir í sterkari deild.

Er mikill fótboltaáhugi á Dalvík?
Það fylgir oft meiri áhugi með árangri og við höfum alveg tekið eftir því að áhuginn í sumar hefur aukist mikið. Einnig hefur áhuginn aukist þar sem að heimamönnum hefur farið fjölgandi í liðinu. Umgjörðin í kringum liðið og heimaleikina er líka mjög góð og hefur stjórnin verið að gera frábærlega þar. Svo hef ég fulla trú á því að áhuginn eigi eftir að aukast enn meir á næstu árum.

Verður spilað á nýjum gervigrasvelli á Dalvík næsta sumar?
Já það er stefnan. Hvort hann verður tilbúinn fyrir fyrsta heimaleik á eftir að koma í ljós.
Athugasemdir
banner