Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 11. september 2021 19:48
Brynjar Ingi Erluson
Ítalía: Koulibaly hetjan í stórslagnum - Juventus í vandræðum
Kalidou Koulibaly greip í myndavél í fögnuðinum
Kalidou Koulibaly greip í myndavél í fögnuðinum
Mynd: EPA
Napoli 2 - 1 Juventus
0-1 Alvaro Morata ('10 )
1-1 Matteo Politano ('57 )
2-1 Kalidou Koulibaly ('85 )

Napoli tókst að snúa við taflinu í síðari hálfleiknum gegn Juventus í kvöld og vann 2-1 sigur á Diego Maradona-leikvanginum í Seríu A.

Spænski framherjinn Alvaro Morata kom Juventus á bragðið á 10. mínútu eftir mistök í varnarlínu Napoli. Hann lét vaða með vinstri og kom David Ospina engum vörnum við.

Heimamenn voru 70 prósent með boltann í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa sér nægilega mörg færi. Hlutirnir snérust þeim í hag í þeim síðari.

Matteo Politano jafnaði metin á 57. mínútu. Lorenzo Insigne átti gott skot sem Wojciech Szczesny varði út á Politano sem skoraði með skoti í fjærhornið.

Sigurmark Napoli kom fimm mínútum fyrir leikslok. Heimamenn áttu hornspyrnu sem Moise Kean gekk illa að koma frá marki, boltinn fór til Szczesny sem missti boltann frá sér út á Kalidou Koulibaly sem skoraði af stuttu færi.

Ekki fallegasta markið en Napoli sættir sig við það. Lokatölur 2-1 og Napoli með níu stig og fullt hús stiga á toppnum eftir þrjá leiki á meðan Juventus er með eitt stig eftir þrjá leiki.
Athugasemdir
banner
banner
banner