lau 11. september 2021 11:30
Victor Pálsson
Van Gaal reiður: Þú ert bara blaðamaður
Mynd: Getty Images
Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, er engum líkur en hann er gríðarlega litríkur karakter og sýndi það um tíma með Manchester United á Englandi.

Van Gaal tók aftur við hollenska landsliðinu í síðasta mánuði en liðið vann tvo leiki í þessari landsleikjahrinu, 4-0 gegn Svartfjallalandi og 6-1 gegn Tyrklandi. Einnig gerði liðið 1-1 jafntefli við Noreg.

Blaðamaðurinn Valentijn Driessen sagði við Van Gaal á blaðamannfundi fyrir helgi að hollenska liðið hans spilaði varnarsinnaðan fótbolta líkt og Chelsea.

Það var eitthvað sem Van Gaal tók ekki beint vel í og er alls ekki sammála því að hans lið spili varnarsinnaðan bolta.

„Þú vilt spila eins og Chelsea og Liverpool," sagði Driessen við Van Gaal sem spurði í kjölfarið hvort það væri varnarsinnaður bolti.

„Það er það sem Chelsea gerir," svaraði Driessen þá og fékk í kjölfarið nokkuð harðkjarna svar frá landsliðsþjálfaranum.

„Alls ekki, Valentijn. Þú hefur enga hugmynd. Það er leiðinlegt að segja en þú ert bara blaðamaður," sagði Van Gaal.

„Þú ert með sjón fyrir blaðinu, frábært. Þú nærð að vekja athygli og svo framvegis. Með því að spila 5-3-2 eða 5-2-3 þá geturðu sótt mjög vel."

„Chelsea sýnir það reglulega í mismunandi kerfum. Hrós á herra Tuchel því hann tók við á miðju tímabili," bætti Van Gaal við en Thomas Tuchel er stjóri Chelsea í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner