Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 11. nóvember 2018 13:37
Fótbolti.net
Staðan á okkar mönnum - Tveir leikir í Belgíu
Icelandair
Hannes er orðinn númer eitt í Aserbaídsjan.
Hannes er orðinn númer eitt í Aserbaídsjan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari er kominn aftur í byrjunarlið Lokeren.
Ari er kominn aftur í byrjunarlið Lokeren.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Gummi Tóta hefur leikið vel í Svíþjóð.
Gummi Tóta hefur leikið vel í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Sigurðsson hefur skotist upp á stjörnuhimininn.
Arnór Sigurðsson hefur skotist upp á stjörnuhimininn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð hefur verið magnaður í Þýskalandi.
Alfreð hefur verið magnaður í Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Emil Hallfreðsson og Jón Daði Böðvarsson eru meðal leikmanna sem eru á meiðslalista íslenska landsliðsins og leika ekki í komandi leikjum.

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði er kominn aftur eftir meiðsli og er í fyrsta sinn í hóp undir stjórn Erik Hamren.

Ísland mætir Belgíu í Brussel (Þjóðadeildin) þann 15. nóvember og Katar í Eupen (vináttulandsleikur) fjórum dögum síðar.

Hvernig er staðan á þeim leikmönnum sem eru í hópnum? Hér má sjá samantekt á því.

Hannes Þór Halldórsson (Qarabag)
Hefur byrjað síðustu leiki liðsins og virðist loks vera orðinn númer eitt á blaði. Var valinn í úrvalslið umferðarinnar í Aserbaídsjan á dögunum og hélt hreinu í 1-0 útisigri gegn Vorskla í Evrópudeildinni.

Rúnar Alex Rúnarsson (Dijon)
Aðalmarkvörður Dijon en stigasöfnun liðsins hefur gengið illa, langt er síðan það vann leik og það er komið í fallsvæðið í frönsku deildinni.

Ögmundur Kristinsson (Larissa)
Hélt hreinu í sigri Larissa í gær og var valinn í úrvalslið umferðarinnar í Grikklandi á dögunum en Larissa er í 10. sæti af 16 liðum.

Birkir Már Sævarsson (Valur)
Birkir meiddist gegn Frakklandi í vináttulandsleik í síðasta mánuði. Hann er í kapphlaupi við tímann fyrir komandi leiki vegna þessara meiðsla.

Kári Árnason (Gençlerbirliği)
Fastamaður í vörn toppliðs tyrknesku B-deildarinnar. Liðið hefur unnið tíu af tólf leikjum og aðeins fengið á sig fimm mörk.

Ari Freyr Skúlason (Lokeren)
Vinstri bakvörðurinn er kominn aftur í byrjunarlið Lokeren og hefur spilað frá upphafi til enda síðustu þrjá leiki. Liðið er í fallbaráttu í Belgíu.

Sverrir Ingi Ingason (Rostov)
Á fast sæti í vörn Rostov sem er í þriðja sæti rússnesku deildarinnar. Liðið hefur aðeins fengið á sig átta mörk í fjórtán leikjum.

Hörður Björgvin Magnússon (CSKA Moskva)
Á fast sæti í vörn CSKA Moskvu sem er í fimmta sæti rússnesku deildarinnar. Liðið hefur aðeins fengið á sig sjö mörk í fjórtán leikjum.

Jón Guðni Fjóluson (Krasnodar)
Varamaður hjá Krasnodar sem er í fjórða sæti rússnesku deildarinnar. Hefur aðeins spilað einn deildarleik.

Hjörtur Hermannsson (Bröndby)
Hefur spilað sjö af sextán deildarleikjum Bröndby sem er í fimmta sæti dönsku deildarinnar. Hjörtur hefur verið á bekknum í síðustu leikjum.

Guðmundur Þórarinsson (Norrköping)
Byrjar alla leiki Norrköping sem vængbakvörður. Liðið er í öðru sæti sænsku deildarinnar.

Aron Einar Gunnarsson (Cardiff)
Kominn úr meiðslum og hefur spilað fjóra síðustu leiki Cardiff í ensku úrvalsdeildinni. Þar af tvo einu sigurleiki liðsins.

Birkir Bjarnason (Aston Villa)
Var á bekknum hjá Aston Villa í gær eftir að hafa verið frá vegna nárameiðsla. Hefur spilað níu af sautján leikjum liðsins í Championship þar sem það er í ellefta sæti.

Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
Lykilmaður hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Arnór Ingvi Traustason (Malmö)
Hefur spilað 21 af 29 leikjum Malmö í sænsku deildinni og skorað fjögur mörk. Malmö er í fjórða sæti.

Rúrik Gíslason (Sandhausen)
Byrjunarliðsmaður á kantinum hjá Sandhausen sem er í fallsvæði þýsku B-deildarinnar.

Guðlaugur Victor Pálsson (Zurich)
Lykilmaður hjá Zurich en er að stíga upp úr meiðslum. Liðið er í fjórða sæti í Sviss.

Eggert Gunnþór Jónsson (SönderjyskE)
Spilar hvern einasta leik á miðju SönderjyskE sem er í fjórða sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Er nú valinn í sitt fyrsta landsliðsverkefni síðan 2014.

Arnór Sigurðsson (CSKA Moskva)
Þessi 19 ára leikmaður spilar alla leiki CSKA og varð á dögunum þriðji Íslendingurinn til að skora í Meistaradeildinni þegar hann kom boltanum í netið gegn Roma.

Samúel Kári Friðjónsson (Valerenga)
Hefur spilað 17 af 28 deildarleikjum norska liðsins á tímabilinu. Liðið er í áttunda sæti en Samúel hefur talsvert verið á bekknum að undanförnu.

Gylfi Þór Sigurðsson (Everton)
Búinn að eiga frábært tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Er lykilmaður í liði Everton og spilar í holunni í öllum leikjum.

Alfreð Finnbogason (Augsburg)
Með sjö mörk i sex leikjum í Bundesligunni eftir að hafa komið sjóheitur upp úr meiðslum. Aðeins tveir leikmenn hafa skorað meira í deildinni.

Albert Guðmundsson (AZ Alkmaar)
Spilar alla leiki fyrir AZ Alkmaar sem er í 8. sæti hollensku deildarinnar. Albert er með tvö mörk og tvær stoðsendingar í tíu deildarleikjum.

Kolbeinn Sigþórsson (Nantes)
Enn úti í kuldanum hjá Nantes. Æfir með varaliðinu en spilar enga leiki.

Jón Dagur Þorsteinsson (Vendsyssel)
Er hjá Vendsyssel á láni frá Fulham og hefur skorað tvö mörk í níu deildarleikjum. Liðið er meðal neðstu liða dönsku úrvalsdeildarinnar.


Athugasemdir
banner
banner