banner
   þri 11. desember 2018 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gylfi og Pogba leiða tölfræðilista sem enginn vill leiða
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson er ekki vanur að klúðra vítaspyrnum en hann gerði það í gær þegar Everton gerði 2-2 jafntefli við Watford í ensku úrvalsdeildinni. Í stöðunni 2-1 fór Gylfi á vítapunktinn en hann lét Ben Foster verja frá sér.

Gylfi skoraði úr sex vítaspyrnum í röð með Swansea en á þessu tímabili hefur hann klikkað á tveimur af þremur spyrnum sínum með Everton.

Gylfi er í hópi með Paul Pogba, miðjumanni Manchester United, en þeir eru einu tveir leikmennirnir sem hafa klúðrað fleiri en einni vítaspyrnu á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Pogba hefur vakið athygli fyrir vítaspyrnuaðhlaup sitt.

Marco Silva, stjóri Everton, er ekki viss um það hvort Gylfi verði áfram vítaskytta númer eitt áfram. Þegar hann var spurður að því eftir leikinn í gær, þá sagði hann:

„Við þurfum að bíða og sjá. Ef ég breyti einhverju þá munu leikmennirnir frétta af því fyrst."



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner