þri 11. desember 2018 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: New York Times 
Hegerberg vill eyða orku í annað en "twerk" ummælin
Ætlar ekki að snúa aftur í norska landsliðið
Ada Hegerberg, besta fótboltakona í heimi.
Ada Hegerberg, besta fótboltakona í heimi.
Mynd: Getty Images
Hegerberg spilar með Lyon í Frakklandi. Þar hefur hún raðað inn mörkunum.
Hegerberg spilar með Lyon í Frakklandi. Þar hefur hún raðað inn mörkunum.
Mynd: Getty Images
Eftir sigur í Meistaradeildinni. Lyon vann Meistaradeildina á síðustu leiktíð eftir sigur á Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg.
Eftir sigur í Meistaradeildinni. Lyon vann Meistaradeildina á síðustu leiktíð eftir sigur á Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg.
Mynd: Getty Images
Ada Hegerberg, leikmaður Lyon hlaut Gullknöttinn eða Ballon D'Or í kvennaflokki við hátíðlega athöfn í París í gær. Þetta var í fyrsta sinn sem verðlaunin voru veitt í kvennaflokki.

Hegerberg er fædd árið 1995 og spilar með Lyon. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún spilað 66 leiki fyrir norska landsliðið og skorað í þeim 38 mörk. Hún er markaskorari af guðs náð.

„Ég vissi að þetta yrði það stærsta sem hefði gerst í mínu lífi en ég vissi ekki almennilega hversu stórt þetta var fyrr en ég gekk á sviðið," sagði Hegerberg í viðtali við New York Times.

Fleiri þekkja hana en áður og var hún stoppuð út á götu á meðan hún var í viðtalinu.

Setti leiðinlegan blett á þennan stóra áfanga
Það að Hegerberg skyldi vinna Ballon D'Or verðlaunin var því miður ekki aðalfréttin frá verðlaunahátíðinni því Martin Solveig, kynnir kvöldsins, gerði sig að fífli þegar Hegerberg tók við verðlaununum.

Solveig bað Hegerberg að "twerka" uppi á sviði fyrir framan salinn.

Hegerberg virtist hafa takmarkaðan húmor fyrir þessi og svaraði fljótt neitandi. Hegerberg segir að þó atvikið hafi verið leiðinlegt þá hafi verið gert of mikið úr því.

„Ég tók þessu ekki illa þannig séð. Ég sagði bara nei og fór vegna þess að auðvitað vildi ég ekki twerka fyrir framan milljónir manns. Fólk tók þessu verr en ég."

Hegerberg segir að það séu mikilvægari málefni í kvennafótbolta sem hún vill frekar eyða orku í. Hún kveðst skilja það fólk sem fannst ummælin óásættanleg.


Hætti í norska landsliðinu
Hegerberg er eins og áður segir búin að leika 66 landsleiki og skora 38 landsliðsmörk þrátt fyrir ungan aldur. Hún spilar samt ekki með norska landsliðinu í dag og hefur ekki gert það síðan sumarið 2017. Hún ákvað að hætta þar sem henni fannst knattspyrnusambandið ekki vera að gera nægilega góða hluti fyrir kvennalandsliðið.

Sögusagnir hafa verið um það að hún muni snúa aftur fyrir HM á næsta ári en hún segir að það sé ekki að fara að gerast.

„Ég gerði sambandinu það ljóst fyrir hvað þyrfti að bæta. Ég gaf ástæður fyrir því. Ég elska landið mitt og ég vildi að ég gæti spilað fyrir það en í þessu tilviki get ég ekki gert það."

Mikill missir fyrir norska landsliðið!

Hér að neðan má sjá myndband með helstu tilþrifum Hegerberg.


Athugasemdir
banner
banner
banner