banner
   fim 12. janúar 2023 22:10
Brynjar Ingi Erluson
England: Felix brást liðsfélögunum í eldskírninni
Joao Felix var sendur í sturtu eftir tæpan klukkutíma
Joao Felix var sendur í sturtu eftir tæpan klukkutíma
Mynd: EPA
Carlos Vinicius fagnar sigurmarki sínu
Carlos Vinicius fagnar sigurmarki sínu
Mynd: EPA
Fulham 2 - 1 Chelsea
1-0 Willian ('25 )
1-1 Kalidou Koulibaly ('47 )
2-1 Carlos Vinicius ('73 )
Rautt spjald: Joao Felix, Chelsea ('58)

Chelsea tapaði þriðja keppnisleik sínum í röð er liðið beið lægri hlut fyrir Fulham, 2-1, á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni í kvöld, en gestirnir spiluðu manni færri eftir að Joao Felix fékk að líta rauða spjaldið í byrjun síðari hálfleiks.

Stuðningsmenn Chelsea biðu fullir eftirvæntingar eftir þessum leik enda einn af mest spennandi leikmönnum Evrópu að byrja leikinn, sjálfur Joao Felix.

Hann kom til félagsins á láni frá Atlético Madríd í gær og eldskírn hans staðfest sólarhring síðar.

Krafturinn í honum var mikill og byrjaði hann með látum, klobbaði andstæðing sinn eftir tvær mínútur og ógnaði markinu nokkrum sinnum í leiknum.

Það var hins vegar Fulham sem tók forystuna er Willan skoraði gegn sínu gamla félagi á 25. mínútu. Boltinn barst til hans vinstra megin í teignum og færði Willian boltann yfir á hægri og lét vaða, en boltinn hafði viðkomu af Trevoh Chalobah og í stöng og inn.

Þýski markvörðurinn Bernd Leno var í stuði í kvöld og varði oft á tíðum frábærlega. Hann kom þó ekki í veg fyrir jöfnunarmark Chelsea á 47. mínútu. Mason Mount skaut þá aukaspyrnu sinni í stöng og var Kalidou Koulibaly réttur maður á réttum stað og kom boltanum í netið af stuttu færi.

Ellefu mínútum síðar fór Joao Felix af velli og það fyrir heimskulega tæklingu á Kenny Tete, varnarmanni Fulham. Felix mætti af fullum krafti, með takkana upp í loft og gat því lítið kvartað yfir því að fá rautt spjald. Skrítin eldskírn hjá honum.

Kai Havertz fékk gott færi til að koma Chelsea yfir á 65. mínútu en Leno varði vel. Átta mínútum síðar skoraði Carlos Vinicius sigurmark Fulham eftir laglega fyrirgjöf Andreas Pereira.

Chelsea reyndi eins og það gat að sækja jöfnunarmark en það kom ekki. Lokatölur 2-1 fyrir Fulham sem hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð. Vandamál Chelsea eru hins vegar enn til staðar og þarf eitthvað meira en Joao Felix til að leysa þau.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner