mán 12. febrúar 2018 15:00
Elvar Geir Magnússon
Kona Potter grét daglega í hálft ár í Östersund
Potter segir að Östersund þurfi að spila verulega vel og Arsenal mjög illa ef sænska liðið ætlar að komast áfram.
Potter segir að Östersund þurfi að spila verulega vel og Arsenal mjög illa ef sænska liðið ætlar að komast áfram.
Mynd: Getty Images
Það er mikill snjór í Östersund.
Það er mikill snjór í Östersund.
Mynd: Twitter
Sænska liðið Östersund tekur á móti Arsenal í fyrri viðureign liðanna í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

Það má svo sannarlega nota í tilvísun í Davíð og Golíat varðandi þennan leik. Allir sem búa í Östersund rúmast á heimavelli Arsenal og Arsene Wenger hefur verið stjóri Arsenal lengur en sænska félagið hefur verið til.

42 ára fyrrum leikmaður Southampton stýrir liði Östersund og er eini enski þjálfarinn sem er eftir í Evrópukeppnum þetta tímabilið.

Á þeim sjö árum sem Potter hefur starfað sem þjálfari Östersund hefur hann tekið liðið frá fjórðu deild og í útsláttarkeppni Evrópudeildarinna eftir að liðið varð bikarmeistari í fyrra.

En hvernig kom það til að Englendingur tók við Östersund, félagi sem stofnað var 31. október 1996? Swansea spilaði æfingaleik við Östersund og þáverandi aðstoðarþjálfari Swansea, Graham Jones, varð góður vinur stjórnarformanns sænska félagsins. Jones hafði spilað með Potter og hvatti formanninn að ráða hann.

Það reyndist erfitt fyrir eiginkonu Potter að aðlagast nýju umhverfi í kuldanum í Svíþjóð.

„Ég fékk tækifæri til að starfa í fótboltanum en Rachel þurfti að segja skilið við sinn starfsframa sem hún hafði byggt upp á tíu árum. Við áttum ellefu mánaða gamalt barn og vorum frá okkar nánustu. Rachel sagði mér síðar að hún hefði grátið á hverjum degi í hálft ár. Hún leyndi því fyrir mér og reyndi að vera jákvæð þegar ég var heima. En hún saknaði fjölskyldu sinnar og Englands," segir Potter í viðtali við Guardian.

Hann er það vinsæll hjá Östersund að það hefur komið í umræðuna í fúlustu alvöru að byggja styttu af honum við leikvanginn. Ensk úrvalsdeildarfélög eru farin að horfa til hans og hann var orðaður við stjórastarf Stoke í vetur,

Á leið sinni í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar hefur Östersund meðal annars tekist að leggja tyrkneska stórliðið Galatasaray en stærsta verkefnið er framundan gegn Arsenal.

„Við gerum okkur grein fyrir því hver staða okkar er. Við þurfum að spila verulega vel og Arsenal mjög illa ef við ætlum að ná sigri. Í fótbolta getur maður alltaf leyft sér að dreyma og við munum gera okkar besta," segir Potter.

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, spilaði undir stjórn Potter hjá Östersund en hann ræddi meðal annars um sænska félagið og enska stjórann í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner