Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 12. febrúar 2019 15:00
Magnús Már Einarsson
Hemmi Hreiðars vill verða yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Fyrrum landsliðsmaðurinn Hermann Hreiðarsson sótti um að gerast yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ þegar starfið var auglýst seint á síðasta ári.

Ljóst er að yfirmaður knattspyrnumála verður ráðinn á næstunni eftir að ársreikningur KSÍ var samþykktur á ársþingi um helgina. Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins, hefur mest verið orðaður við starfið en Hermann hefur einnig áhuga.

„Ég sótti um. Ég er með alla reynsluna sem þarf í þetta," sagði Hermann við Fótbolta.net í hlaðvarpsþættinum Miðjunni í dag.

„Ég er búinn að sækja um og ég veit að ég hef helling fram að færa. Ég er með reynsluna karlamegin, kvennamegin, í borginni, úti á landi, erlendis og fyrir utan það að hafa verið í landsliðinu í tuttugu ár. Ég var líka atvinnumaður í Englandi í fimmtán ár og maður tikkar í ansi mörg box."

Hermann hefur þjálfað ÍBV og Fylki eftir að ferlinum lauk og síðast var hann aðstoðarþjálfari hjá Kerala Blasters í Indlandi. Hermann byrjaði snemma á leikmannaferlinum að hugsa um þjálfun og hann hefur nú lokið við að að fá UEFA pro þjálfaragráðu. Hann stefnir áfram á þjálfun í framtíðinni.

„Maður skoðar allt. Það er engin spurning. Ég hef ótrúlega mikinn áhuga á þessu og veit að ég hef helling fram að færa. Hvar og hvenær, það kemur í ljós," sagði Hermann.

Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner