mán 12. mars 2018 17:15
Elvar Geir Magnússon
Leikmaður Barcelona skammast sín þegar hann fer út úr húsi
Andre Gomes hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Barcelona og það leggst þungt á hann.
Andre Gomes hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Barcelona og það leggst þungt á hann.
Mynd: Getty Images
Andre Gomes, miðjumaður Barcelona, viðurkennir að hann sé ekki að njóta fótbolta þessa stundina og að hann skammist sín þegar hann fer út úr húsi.

Þessi 24 ára leikmaður hefur verið í brasi síðan hann gekk í raðir Barcelona frá Valencia 2016.

„Mér líður ekki vel á vellinum og nýt þess ekki sem ég er að gera," segir Gomes í opinskáu viðtali.

„Vinir mínir segja að ég sé að spila með handbremsuna á og ég veit að það er satt. Það fer í taugarnar á mér að ég sé ekki að ná að stíga upp."

„Hlutirnir breyttust eftir fyrstu sex mánuðina og pressan var meiri. Það er fínt en ég set of miklar kröfur á sjálfan mig... ég er fullkomnunarsinni og get ekki sætt mig við mistök. Þetta hefur orðið að helvíti... það er samt kannski ekki rétta orðið."

„Ég get ekki hrist neikvæðar stundir úr höfðinu og það hefur áhrif á frammistöðu mína. Ég er að hugsa of mikið út í mistökin. Ég skammast mín og stundum tel ég mig ekki geta farið út úr húsi því fólk er að horfa á mig," segir Gomes.
Athugasemdir
banner
banner
banner